Persónulegur ávinningur megi ekki hafa áhrif

Sara Lind Guðbergsdóttir er forstjóri Ríkiskaupa.
Sara Lind Guðbergsdóttir er forstjóri Ríkiskaupa. Samsett mynd

Sara Lind Guðbergsdóttir, forstjóri Ríkiskaupa, segir að persónulegur ávinningur, svo sem vildarpunktar hjá Icelandair, eigi ekki og megi ekki hafa áhrif á kaup ríkisstarfsmanna á flugmiðum. Fyrir liggi skammtímasamningur með það að markmiði að fá sem hagkvæmasta verð.

Alþingi keypti á síðasta ári flug­miða af Icelandair fyr­ir 20,9 millj­ón­ir króna en ein­ung­is fyr­ir 500 þúsund krón­ur af Play. Icelandair býður viðskipta­vin­um sín­um upp á að safna vild­arpunkt­um þegar ferðir eru bókaðar með flug­fé­lag­inu. Play býður ekki upp á sömu þjón­ustu. Birgir Jónsson, forstjóri Play, sagði í kjölfar þess við mbl.is að þingmenn veldu sér frekar flug með Icelandair vegna þessa.

Markmiðið að fá hagkvæmasta verðið

Sara Lind segir í færslu á samfélagsmiðlinum LinkedIn að fyrir sé skammtímasamningur um flugþjónustu á milli Ríkiskaupa og flugfélaganna Icelandair og Play. Hún segir að í samningnum sé fyrst og fremst keppt á verðum en ekki sé tekið tillit til annara fríðinda sem kunna að vera hluti af þjónustuframboði flugfélaganna.

„Markmiðið með samningnum er skýrt  að fá hagkvæmasta verðið í flugfargjöld,“ segir meðal annars í færslunni.

„Gagnrýnin sem hefur komið fram er fullkomlega réttmæt og ég ætla ekki að halda öðru fram en að það kunni að skapa freistnivanda hjá starfsfólki þegar það er að bóka flug að kaupa flugið heldur hjá þeim aðila sem býður þeim möguleikann á hlunnindum sem það getur síðar nýtt til persónulegra nota.“

Gera þarf hagkvæmniskröfu til ríkisstarfsmanna

Sara segir að gera þurfi þá kröfu til ríkisstarfsmanna að velja alltaf hagkvæmasta kostinn sem til boða standi út frá kostnaði fyrir ríkið.

„Persónulegur ávinningur á ekki og má ekki hafa hér áhrif. Það er mikilvægt að stofnanir ríkisins brýni það fyrir sínu fólki að hvatar eins og þeir sem að framan er lýst mega ekki hafa áhrif við val.“

Að lokum segir hún að rammasamningur um flugfargjöld séu í endurskoðun og samhliða því fari fram mat á möguleikum um samning bókunarþjónustu.

„Það er óumflýjanlegt að þessi atriði komi þar til skoðunar enda markmiðið að ná fram hagkvæmum verðum og efla samkeppni á sama tíma og við gætum að jafnræði aðila,“ segir hún að lokum í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert