„Lykillinn að íþrótta- og afreksuppbyggingu Norðmanna eru skólarnir og sú markvissa vinna nær marga áratugi aftur í tímann. Kerfi sem þeir kalla Toppidretts Gymnasium.“
Þetta segir Bjarni Jóhannsson, knattspyrnuþjálfari til áratuga, íþróttakennari og umsjónarmaður afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla, en hann dvaldist í Noregi um tíma fyrr á þessu ári til að kynna sér þetta merkilega starf sem skilað hefur stórstjörnum á borð við knattspyrnumennina Erling Haaland og Martin Ødegaard, kylfinginn Viktor Hovland, tennisleikarann Casper Ruud og haluparana Karsten Warholm og Ingebrigtsen-bræður.
Að ekki sé talað um stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar í handboltalandsliðinu.
Bjarni lýsir því á þann veg að nemendum sé gefinn kostur á bóklegu námi með íþrótt sinni sem gengur fyrir. Námið er með öðrum orðum byggt upp kringum íþróttina. Þetta hefur lengi tíðkast í framhaldsskólum en í seinni tíð líka í grunnskólum.
„Áhersla er lögð á íþróttina og almenna heilsuvitund og aukaæfingar fara fram á skólatíma en ekki á kvöldin eða morgnana. Sé nemandinn hæfileikaríkur og líklegur til afreka fær hann brautargengi til þess í skólakerfinu að keppa með félagi sínu eða landsliðinu. Íþróttin er sett á oddinn og annað nám er byggt í kringum áhugasvið nemandans. Meðan börnin okkar sitja inni og reikna þá eru norsk börn úti að æfa,“ segir Bjarni sposkur.
„Þetta snýst um að finna styrkleika barnanna og vinna út frá því. Íslenska skólakerfið hefur því miður ekki verið nógu duglegt að fara þessa leið, eins og dæmin sanna. Sóknarfærin eru því tvímælalaust fyrir hendi. Nægir þar að nefna áhugaverða tilraun sem Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði, hefur verið að gera með góðum árangri í Vestmannaeyjum undir yfirskriftinni Kveikjum neistann.“
Þessi markvissa vinna hefst við 12 ára aldur en fram að því er bannað í Noregi að vera með launaða þjálfara í íþróttum barna og áhersla á keppni er mun minni en við eigum að venjast hér heima. Bjarni segir þetta hafa sína kosti og galla og margir í Noregi öfundi okkur Íslendinga af því að vera með launaða þjálfara í barnastarfi og öllum barnamótunum.
„Við erum mjög stolt af þessum barnamótum okkar sem sett hafa svip sinn á menningarlíf bæja, svo sem fótboltamótunum á Akranesi, Akureyri, í Vestmannaeyjum og Kópavogi, Nettómótinu í körfubolta, Andrésar Andar-leikunum á skíðum og svo framvegis. Þessi mót eiga það hins vegar öll sameiginlegt að vera fjáraflanir. Hefur einhver velt fyrir sér hvort það sé gott fyrir börnin?“
Á móti kemur að foreldrar tengjast íþróttaiðkun barna sinna betur fyrstu árin í Noregi en hér. „Norðmenn vinna miklu minna en við, þurfa ekki að vera í tvöfaldri vinnu til að þjóna seðlabankastjóra og arðsemisgræðgi bankanna,“ segir Bjarni sposkur, „og foreldrar eru fyrir vikið meira til staðar fyrir börnin sín, meðal annars í íþróttum, þar sem margir foreldrar sjá hreinlega um þjálfunina. Það á mögulega sinn þátt í árangri barnanna þegar fram í sækir.“
Spurður hvort norska kerfið, sem hér hefur verið lýst, sé ennþá öflugra en hann bjóst við svarar Bjarni umsvifalaust játandi. „Og það á bara eftir að vaxa.“
Ítarlega er rætt við Bjarna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um hvað við getum lært af Norðmönnum þegar kemur að uppbyggingu afreksfólks í íþróttum.