Landsréttur hefur dæmt Sorpu til þess að greiða Íslenskum aðalverktökum rúmar 88 milljónir króna og staðfestir þar með bótakröfu Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði komist að svipaðri niðurstöðu.
Málið snýr að almennu útboði sem fólst í því að reisa gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi. Fjögur tilboð bárust í verkið en ekki var gengið að neinu þeirra sökum þess að þau voru öll 10% hærri en kostnaðaráætlun verksins. Í kjölfarið ákvað Sorpa að hefja samningsferli við þá kaupendur sem uppfylltu fjárhagslegar og tæknilegar kröfur.
Þrjú félög tilkynntu þátttöku í samningsferlinu, þar á meðal fyrirtækið sem fékk verkið og Íslenskir aðalverktakar. Úr varð að ekki var gengið að tilboði ÍAV heldur hins fyrirtækisins. Íslenskir aðalverktakar komust þó á snoðir um það að mótbjóðandinn hefði lagt fram frávikstilboð sem gengur í berhögg við lög um jafnræði bjóðenda og gagnsæi við innkaup.
Fram kemur í dómi að skilmálarnir sem giltu um samningsferlið hefðu verið misvísandi og til þess fallnir að valda misskilningi um að hvaða marki þeim væri heimilt að víkja frá skilmálum samningskaupanna með frávikum og undanþágum. Þannig var fyrirtækinu sem vann útboðið talið það heimilt en Íslenskum aðalverktökum ekki.
Í dómi segir að ljósi óskýrleika skilmála útboðsins hafi fyrirtækin tvö ekki setið við sama borð. Af þeim sökum voru tilboðin ekki samanburðarhæf og byggð á mismunandi forsendum. Það hafi valdið ÍAV bótaskyldu tjóni sem metið var á rúmar 88 milljónir króna.