Frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands hefur ákveðið að áfrýja úrskurði úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar sem féll nýlega um að biskup hefði ekki haft stjórnsýslulegt umboð til þess að gegna starfi biskups frá 1. júlí í fyrra. Skipunartími hennar sem biskup rann út 30. júní 2022 en tveimur dögum áður sendi forseti kirkjuþings henni bréf um áframhaldandi ráðningu.
„Fæst í þessu lífi kemur mér á óvart. Ég er bara þannig gerð. Sá úrskurður sem féll í vikunni skapar krefjandi stöðu innan stjórnsýslu kirkjunnar. Þarna eru tvær ákvarðanir felldar úr gildi og óljóst hvort það hafi áhrif á aðrar ákvarðanir sem teknar hafa verið. Það snertir síst mig en fjölmarga aðra og má þar nefna skipun presta og fleira,“ segir Agnes.
„Ástæðan fyrir því að ég er að setja þetta mál fyrir dómara landsins er til að bregðast við þessari stöðu sem nú ríkir innan þjóðkirkjunnar. Það geri ég ekki fyrir mína hönd persónulega og prívat heldur fyrir hönd þjóðkirkjunnar og biskupsembættisins. Það þarf að fá botn í þetta mál og taka afstöðu til þess hvort fleiri stjórnsýslulegar ákvarðanir sem hafa verið teknar frá 1. júlí 2022 séu ómerkar. Ég tek þetta alvarlega og það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar allra í kirkjunni að ákveða hvernig eigi að bregðast við.
Ég sem biskup Íslands vinn ekki í umboði kirkjuþings. Ég vinn í umboði þeirra sem kusu mig til þessa starfs árið 2012, sem voru fulltrúar kirkjunnar um allt land. Það er búið að vefjast fyrir í öllum þessum breytingum og skipulagsbreytingum undanfarin ár hvar á að setja biskupsembættið og enn er það í mótun.“
Agnes segir hluta af vandanum felast í því að kirkjuþing fann ekki í tæka tíð lausn á skipun biskups. „Í minni biskupstíð hafa orðið einhverjar mestu breytingar á þjóðkirkjunni í hennar sögu. Með breytingum á lögum árið 2021 fékk þjóðkirkjan stjórn eigin mála og er það kirkjuþing sem setur starfsreglur um öll innri mál. Þetta var stórt verkefni sem kallaði á alls kyns breytingar sem því miður er ekki lokið. En ég hef fulla trú á því að með mannauði þjóðkirkjunnar, sem er breiður og öflugur, finnist góð lausn á því.“
Ítarlegra viðtal er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út um helgina.