Vill endurgreiða vildarpunkta

Samsett mynd

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir því að endurgreiða Alþingi þá vildarpunkta sem hún hefur fengið vegna flugferða sinna sem þingmaður með Icelandair.

„Ég hef óskað eftir því að endurgreiða þinginu þá vildarpunkta sem að ég hef fengið vegna minna flugferða. Það er í ferli í þinginu að koma upp einhvers konar almennu ferli fyrir okkur sem viljum gera þetta,“ segir Þórhildur Sunna í samtali við mbl.is.

„Skrifstofan er í raun með það á sinni könnu núna að finna út hvernig eigi að endurgreiða svona punkta í samræmi við hvernig við fáum þá, það er þá í formi peninganna sem þeir jafngilda.“

Skrifstofa Alþingis kaupir almennt miðana

Alþingi keypti á síðasta ári flug­miða af Icelanda­ir fyr­ir 20,9 millj­ón­ir króna en ein­ung­is fyr­ir 500 þúsund krón­ur af Play. Icelanda­ir býður viðskipta­vin­um sín­um upp á að safna vild­arpunkt­um þegar ferðir eru bókaðar með flug­fé­lag­inu. Play býður ekki upp á sömu þjón­ustu. 

Birg­ir Jóns­son, for­stjóri Play, segir þing­menn frek­ar vilja fljúga með Icelanda­ir vegna vildarpunktasöfnunar.

Þá hefur hann gagnrýnt þingmenn fyrir það að fljúga á Saga Class.

Í samtali við mbl.is segir Þórhildur Sunna að alla jafna kaupi skrifstofa Alþingis flugmiða fyrir þingmenn. Það heyri til undantekninga að þingmenn kaupi flugmiða sjálfir.

Þá séu almennt ekki keypt sæti á Saga Class en þingmenn geti sjálfir keypt sér uppfærslu. Sjálf hefur Þórhildur Sunna keypt sér þessa uppfærslu. Segist hún þó aðeins gera það það ef hún er á leið í mjög löng ferðalög, til dæmis þar sem hún þarf að taka tengiflug.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, hefur gagnrýnt flugmiðakaup Alþingis. Hann telur …
Birgir Jónsson, forstjóri Play, hefur gagnrýnt flugmiðakaup Alþingis. Hann telur þingmenn frekar vilja fljúga með Icelandair þar sem þeir safni vildarpunktum með hverju flugi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir nei við Play

Þórhildur Sunna nefnir við blaðamann að sér finnist vanta inn í þá umræðu, sem hefur átt sér stað um flugmiðakaup ríkisstarfsmanna, að Play hafi komið illa fram við sitt starfsfólk og sé ekki tilbúið að vera með alvöru verkalýðsfélag. 

Sjálf kveðst hún helst ekki vilja fljúga með flugfélaginu vegna þessa.

Play var harðlega gagnrýnt árið 2021, meðal annars af Alþýðusambandi Íslands, fyrir launakjör starfsmanna.

„Mér finnst vanta inn í umræðuna að það eru ekkert endalausir kostir heldur við að fljúga með Play, sem hefur komið mjög illa fram við sitt starfsfólk og er ekki tilbúið að vera með alvöru verkalýðsfélag,“ segir Þórhildur Sunna.

„Mér hefur alltaf fundist það vera það helsta sem stendur gegn því að ég vilji fljúga með Play, án þess að ég geti sagt mig á móti því ef að þingið kaupi þannig miða fyrir mig. Það hefur ekkert með vildarpunktana að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert