Á annað hundrað með tengsl við brotastarfsemi vísað frá landi

Úlfar Lúðvíksson er lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson er lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Tveimur mönnum sem eru með tengsl við glæpasamtök í Svíþjóð var vísað frá landi í síðustu viku. Á þriðja hundrað manns hefur verið vísað frá landi undanfarin misseri.  Stór hluti þess hóps er talinn ógn við almannaöryggi hér á landi.

Þetta kemur fram í máli Úlfar Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, en fyrst var greint frá málinu á RÚV.

„Svíar hafa verið hér í afbrotum og það á sér ekki langa sögu hérlendis,“ segir Úlfar.  

Að sögn Úlfars er hér eingöngu átt við hóp sem hefur verið vísað frá landi við komuna á Keflavíkurflugvöll. Ekki er um að ræða fólk sem þegar var á landinu. 

 Stærsti hópurinn frá Albaníu 

„Af þessum hópi eru á annað hundrað manns sem hefur þurft að hverfa frá landi vegna tengsla við brotastarfsemi,“ segir Úlfar. Jafnframt er um að ræða fólk sem er nærri því að vera með útrunnin vegabréf og er vísað frá landi af þeirri ástæðu í takti við Schengen samkomulagið. 

Hann segir að stærsti hópurinn sem hafi þessi tengsl séu fólk frá Albaníu.

„Fólk sem kemur hérna er að koma frá öðru Schengen ríki og þarf ekki að sæta hefðbundnu vegabréfseftirliti,“ segir Úlfar en bætir því við að landamæraeftirlit hafi verið hert.  

Hann segir að annar þeirra tveggja sem vísað var frá landi hafi átt sér sögu um brotastarfsemi á Íslandi. Komu þeir til landsins í gegnum Pólland.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert