Allt um kvennaverkfallið á morgun

Frá kvennafrídeginum 2018.
Frá kvennafrídeginum 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Götulokanir verða í miðborg Reykjavíkur frá klukkan 11 á morgun vegna dagskrár í kringum kvennaverkfall og fyrir framan Arnarhól verður lokað fyrir umferð frá klukkan 18 í dag. Dagskrá hefur verið skipulögð víða um land og verður á Akureyri, Neskaupstað, Egilsstöðum, Dalvík, Höfn, Húsavík, Blönduós, Sauðárkrók, Patreksfirði, Hvammstanga, Ísafirði, Raufarhöfn, Reykjavík, Stykkishólmi, Suðurnesjum, Vestmannaeyjum, Vík og Drangsnesi. 

Í tilkynningu frá skipuleggjendum kvennaverkfallsins kemur fram að konur og kvár í nærliggjandi sveitarfélögum við Reykjavík séu hvött til að sækja baráttufundinn á Arnarhól og hafa rútuferðir verið skipulagðar m.a. frá Selfossi, Hafnarfirði og Reykjanesbæ.

Götulokanir vegna kvennaverkfalls á morgun, þriðjudaginn 24. október.
Götulokanir vegna kvennaverkfalls á morgun, þriðjudaginn 24. október.

Baráttufundurinn á Arnarhóli klukkan 14:00.

Kynnar: Ólafía Hrönn og Aldís Amah Hamilton verða kynnar fundarins.

Tónlist: Sóðaskapur (pönk hljómsveit skipuð þremur ungum konum), Ragga Gísladóttir og Una Torfadóttir (leiðir fjöldasöng, Áfram stelpur).
Ræðufólk: 

  • Urður Bartels - ungt stálp úr MH
  • Guðbjörg Pálsdóttir - formaður félags hjúkrunarfræðinga 
  • Alice Olivia Clarke - rekur fyrirtækið Tíra reflective accessories 

Annað: Hópatriði, Jafnréttisparadísin - fjölbreyttur hópur kvenna og kvára fjallar um jafnréttisparadísina Ísland.

Af öðrum áhugaverður viðburðum í tengslum við kvennaverkfallið verða meðal annars skiltagerð á Grettisgötu 80 frá klukkan 17-20 í kvöld. Þá hefst dagurinn á morgun með morgungöngu í kringum Tjörnina klukkan 9:00.

Á Akureyri verður skiltagerð kl 10:30 á morgun og baráttufundur klukkan 11:00.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um viðburði hér og upplýsingar um götulokanir hér.

Vegna götulokana verða eftirfarandi breytingar á þjónustu Strætó meðan á lokununum stendur:

  • Kalkofnsvegur milli Hverfisgötu og Geirsgötu verður lokaður frá kl. 18:00 á mánudeginum til kl. 19:00 á þriðjudaginn. Leið 3 fer Hverfisgötu og leið 14 að fer Sæbraut/Geirsgata í báðar áttir.
  • Þriðjudagur kl 11:00–16:00. Hefðbundin miðbæjarlokun. Sæbraut/Geirsgata verður opin.
  • Leiðir 3 og 14 fara Sæbraut/Geirsgötu og leiðir 1, 6, 11, 12 og13 fara Snorrabraut út í Háskóla og inn á leið eftir það.

Á vefsíðu kvennaverkfallsins má finna svör við ýmsum spurningum, meðal annars af hverju skipuleggjendur tala um kvennaverkfall nú en ekki kvennafrí. Af hverju horft sé á þetta sem verkfall en ekki frí, hvað gera eigi ef ekki sé möguleiki að taka þátt, hvort launagreiðendum sé skylt að greiða fyrir vinnutíma í verkfallinu og hvað sé hægt að gera ef hann gerir það ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert