Forsætisráðherrann alltaf á vaktinni

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar að leggja niður störf á morgun og taka þátt í kvennaverkfallinu. Hún hefur tekið þá ákvörðun að fresta ríkisstjórnarfundi fram til miðvikudags en vanalega eru ríkisstjórnarfundir á þriðjudögum.

Ekki mun neinn annar ráðherra leysa Katrínu af hólmi á morgun en Katrín á von á því að allar konurnar í ríkisstjórninni taki sér frí.

„Ég legg niður formleg störf á morgun en vitaskuld er forsætisráðherrann alltaf á vaktinni alla daga hvort sem það er aðfangadagur eða kvennafrídagur. Ég hef ákveðið að hafa ekki ríkisstjórnarfund á morgun og á Alþingi verða bara karlkynsráðherrar til svara í óundirbúnum fyrirspurnum. Við sýnum samstöðu með þessum hætti,“ segir Katrín í samtali við mbl.is en þeir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-,orku- og loftlagsráðherra, Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra verða til svara á þinginu á morgun.

Gefur bílstjóra sínum frí í tilefni dagsins

Katrín segir að það sé algjörlega ákvörðun hvers og eins kvenráðherra í ríkisstjórninni hvort þeir hyggist leggja niður störf eða ekki. 

„Ég upplýsti um það að ég ætlaði að fella niður ríkisstjórnarfund til þess að sýna þessa samstöðu og bílstjóri minn, sem er kona þessa dagana, fær frí í tilefni dagsins,“ segir Katrín, sem ætlar að mæta á samstöðufund á Arnarhól klukkan 14 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert