„Okkur finnst þetta algjörlega út úr kortinu, að fá svona dylgjur og rógburð frá kjörnum þingmanni. Það væri mjög gaman að sjá einhvern rökstuðning fyrir þessu,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, í samtali við mbl.is.
Hann vísar til ummæla Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur þingmanns Pírata, sem einnig ræddi við mbl.is og reifaði þar hvað stæði því í vegi að hún kysi að fljúga með Play.
„Við mælumst með hæstu starfsánægju af íslenskum fyrirtækjum og erum með 550 starfsmenn, áhöfnin okkar var kosin ein sú besta í heiminum af USA Today fyrir tveimur vikum,“ segir Birgir.
„Það sem hún vísar í eru yfirlýsingar og rógburður ASÍ sem þau gátu aldrei sýnt nein sönnunargögn fyrir. Við ítrekað kölluðum eftir samtali eða úrræðum, þar sem hægt væri að sýna fram á að þessar dylgjur væru út úr kortinu, og það kom aldrei neitt frá þeim,“ segir hann.
„Vitandi það að þessir aðilar og þessi samtök hafa ekki verið feimin hingað til, við að stefna fyrirtækjum eða leita lagalegra úrræða, og það gerðist aldrei neitt.“
Play hafi þurft að sitja undir þessum dylgjum síðan þá.
„Að þurfa að sjá þetta frá þingmanni á Alþingi, þar sem hún er að reyna að réttlæta mál sem er augljóslega galið, og að draga upp svona gamlar dylgjur – það er stóralvarlegt mál,“ segir hann.
„Við gerum kröfur um það að hún þurfi að standa fyrir máli sínu.“
Svo þú gefur lítið fyrir þennan rökstuðning?
„Mér finnst þetta bara sorglegt,“ segir Birgir.
„Ef þetta væri aðili úti í bæ þá getur fólk ráðið með hvaða flugfélagi það er að fljúga. Þetta er aftur á móti þingmaður, sem eðli málsins samkvæmt hefur trúverðugleika og fólk hlustar á. Og að segja svona um fyrirtæki út í bæ, algjörlega órökstutt, er grafalvarlegt og fáránlegt mál,“ bætir hann við.
„Maður hlýtur að þurfa að gera þá kröfu um að viðkomandi þingmaður standi fyrir máli sínu.“
Birgir bendir á að hann sé ekki sérstakur málshefjandi í þessari umræðu um kaup þingmanna á flugmiðum. „Ég hef ekki verið að segja það að allir verði að fara með Play,“ segir hann.
Fyrirtæki og stofnanir verði að ráða því hvaða flugfélag verði fyrir valinu eftir því hvað henti best og reynist hagkvæmast.