Óttar Pálsson, lögmaður og meðeigandi á Lögmannsstofunni Logos, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttaflutnings vefmiðla af ætlaðri líkamsárás sem nafn hans hefur verið tengt við á ýmsum miðlum.
Segir Óttar í yfirlýsingunni að lýsingar af atviki, sem átti sér stað fyrir rúmlega tveimur vikum síðan, séu að verulegu leyti ósannar, meiðandi og til þess fallnar að valda sársauka þeirra sem síst skyldi.
„Því finnst mér rétt að fram komi að ég hafna hvers kyns sökum sem á mig eru bornar.“
Lögmaðurinn kveðst ekki tjá sig frekar um málið að sinni.
Heimildir mbl.is herma að ætluð líkamsárás sé til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en ekki hafi formleg kæra verið lögð fram.
Samkvæmt ákvæðum lögmannalaga er eitt skilyrði til lögmannsréttinda að lögmaður hafi aldrei hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að lögmaður náði 18 ára aldri.
Þannig verður að teljast veruleg hætta á því að Óttar missi lögmannsréttindi sín verði hann ákærður og fundinn sekur af þeirri ákæru.
Yfirlýsing Óttars í heild sinni:
„Vefmiðlar hafa undanfarna daga flutt fréttir af ætlaðri líkamsárás sem nafn mitt er tengt við.
Lýsingar af atviki, sem átti sér stað fyrir rúmlega tveimur vikum síðan, eru að verulegu leyti ósannar, meiðandi og til þess fallnar að valda sársauka þeirra sem síst skyldi. Því finnst mér rétt að fram komi að ég hafna hvers kyns sökum sem á mig eru bornar.
Ég mun ekki tjá mig frekar um málið að sinni.“