Talið er að í ár vanti alls 12,1 milljarð króna inn í landbúnaðinn þannig að búrekstur sé í jafnvægi. Afurðaverð hefur vissulega hækkað nokkuð, en rekstrargjöld og fjármagnsliðir þeim mun meira. Þess vegna hefur myndast gat upp á 8,6 milljarða kr. sem bændur þurfa sjálfir að brúa.
Þetta kemur fram í gögnum sem Bændasamtökin kynntu Alþingi fyrir helgina. „Þvert yfir í landbúnaði er sáralítil geta til launagreiðslna, hvað þá frekari fjárfestinga. Fjöldi bænda horfir nú í kringum sig og þeir hafa jafnvel áhuga á að róa á ný mið,“ segir Steinþór Logi Arnarsson formaður Samtaka ungra bænda.
Ungbændur efna í vikunni til fundar hvar þeir ætla að kynna og ræða stöðu sína og landbúnaðar. Þeir kalla eftir aðgerðum, eins og stjórnvöld hafa nú í skoðun. Steinþór segir fólk á stundum vera í læstri stöðu. Vinnudagurinn sé langur og í búskap megi ekki vanrækja skepnur eða skuldir. Í núverandi ástandi gildi einu að bæta við sig vinnu og auka tekjur, sem komi með sárindum niður á fjölskyldulífi.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.