Aðeins verða teknar fyrir óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á þingfundi á morgun áður en honum er síðan frestað vegna kvennaverkfallsins.
Þetta staðfestir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is, sem segist hafa fengið póst þess efnis frá forseta Alþingis að þingfundi yrði frestað.
Að loknum fyrirspurnatíma hefði átt að taka fyrri átta mál á þingfundinum, en þau verða því sennilega tekin fyrir seinna. Þau mál sem um ræðir eru bann við blóðmerahaldi, kristnifræðikennsla í Grunnskólum, brottfall laga um heiðurslaun listamanna, og leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðargæs og helsingja utan hefðbundins veiðitímabils, svo fátt sé nefnt. Er Inga flutningsmaður tveggja þeirra mála sem voru á dagskrá.
Eins og mbl.is hefur greint frá munu konur og kvár um allt land leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan morgundaginn til þess að mótmæla vanmati á störfum sínum og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi.
Því má búast við viðhlítandi skerðingu á þjónustu víða um land – hvort sem um ræðir í bönkum, sundlaugum eða jafnvel í rikisstjórn. Þannig hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greint frá því að ekki verði af ríkisstjórnarfundi sem alla jafnan fer fram á þriðjudögum.