„Ekki minni fjöldi en á menningarnótt, en mun þéttara“

Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 1 á …
Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 1 á höfuðborgarsvæðinu, segir að ekki kæmi sér á óvart ef fast að 100 þúsund hefðu mætt í miðbæinn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gríðarlega fjölmennt var í miðbæ Reykjavíkur í dag þar sem baráttufundur vegna kvennaverkfalls fór fram. Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að ekki hafi verið minna í miðbænum í heild en er til dæmis á menningarnótt. Þó verði að hafa í huga að mannfjöldinn hafi verið mun þéttar saman kominn í dag en almennt þegar stærri hátíðir eru í bænum.

Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöðinni í miðbænum, segir í samtali við mbl.is að allt hafi gengið mjög vel í dag og ekkert markvert komið upp.

Fast að 100 þúsund kæmi ekki á óvart

Spurður út í fjölda þeirra sem sóttu miðbæinn og baráttufundinn segir Ásmundur ljóst að gríðarlegur fjöldi hafi verið í miðbænum. Hins vegar sé alltaf erfitt að meta fjölda, en að miðað við aðra stóra viðburði eins og menningarnótt sé ljóst að kvennaverkfallið hafi ekki gefið því neitt eftir. „Þetta er ekki minni fjöldi en á menningarnótt, en mun þéttara,“ segir hann við mbl.is. „Það kæmi mér ekki á óvart ef fast að 100 þúsund hefðu verið í bænum,“ bætir hann við.

Til að setja þetta í betra samhengi segir Ásmundur að þegar menningarnótt sé í gangi dreifist mannfjöldinn mun meira um miðborgina. Í dag hafi hins vegar eiginlega allir verið á og í kringum Arnarhól. Því sé þéttleikinn mun meiri en oftast áður á stærri viðburðum.

Flestir kannast við tónleika tónaflóðs á Arnarhóli á menningarnótt. Ásmundur segir að mun mun fleiri hafi verið á Arnarhóli í dag en á slíkum tónleikum. Þá bendir hann á að nokkuð þétt hafi verið staðið bæði fyrir framan Stjórnarráðið og upp að Seðlabanka.

Þegar horft til að aflétta lokunum

Ljóst er að talsverður fjöldi þarf því að fara úr bænum, en Ásmundur segist bjartsýnn á að það gangi vel. „Veðrið er gott og það er góður andi.“ Þá segir hann að í fjarskiptunum sé þegar farið að tala um að aflétta lokunum og að greinilegt sé að mjög stór hluti gestanna komu gangandi í bæinn. Segist hann bjartsýnn á að þetta muni allt leysast frekar hratt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert