Enn eru störf kennd við konur eða karla

mbl.is/Hákon

Ef hugtakinu kvennastörf er slegið upp á leitarvél Google skilar hún um 30 þúsund leitarniðurstöðum á netinu. Þó að stór skref hafi verið stigin í að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og dregið hafi úr launamun á undanförnum árum er enn algengt að talað sé um hefðbundin kvennastörf á vinnumarkaðinum, vanmetin störf og iðulega verr launuð en karlastörf.

Enn er áberandi kynjaskipting á milli starfa og starfsgreina. Vinnumarkaðurinn er kynjaskiptur og er það talið meginorsök þess kynbundna launamunar sem launarannsóknir hafa ítrekað leitt í ljós.

Launamunurinn á milli karla og kenna hefur að sönnu dregist saman á síðari árum og á alþjóðavísu hafa Íslendingar samfleytt í 14 ár vermt efsta sætið á lista Alþjóðaefnahagsráðsins, sem ber saman kynjabil og stöðu jafnréttismála í ríkjum heims. Eftir sem áður er þó áberandi munur á ýmsum sviðum.

Starfshópur forsætisráðherra sem fjallaði um verðmætamat kvennastarfa árið 2021 benti á að konur sinna nú sem endranær í meiri mæli en karlar störfum við þjónustu, umönnun og fræðslu, sem eru lægra launuð en störf í öðrum greinum þar sem karlar eru í meiri hluta. Samanburður á launum leiddi í ljós að 72% kvenna störfuðu í greinum sem eru á lægri helmingi launaskalans á vinnumarkaði en „karlar eru 75% þeirra sem skipa þær stéttir sem eru á hærri helmingnum“, sagði í skýrslu hópsins.

Í seinustu stöðuskýrslu forsætisráðuneytisins, þar sem staða kynjanna var kortlögð, kom m.a. fram að í ferðaþjónustu eru konur af erlendum uppruna í yfirgnæfandi meiri hluta þeirra sem sinna láglaunastörfum, konur er mikill meiri hluti starfsfólks í heilbrigðisþjónustu, umönnun og við kennslu og konur eru um þriðjungur menntaðra lögreglumanna.

Ítarlegri umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert