Hussein Hussein, fatlaður maður frá Írak, og fjölskylda hans hafa ákveðið að fara sjálfviljug úr landi. Lögmaður fjölskyldunnar segir ástæðuna fyrir því vera fyrst og fremst vegna aðferða lögreglu þegar þeim var síðast vísað úr landi.
Hussein og fjölskyldu hans hefur verið synjað um alþjóðlega vernd tvisvar og synjaði Alþingi umsókn þeirra um ríkisborgararétt fyrr á árinu. Fengu þau frest til miðnættis í gær til að ákveða hvort að þau myndu fara sjálfviljug úr landi eða með valdi eins og síðast þegar þeim var vísað úr landi.
Albert Björn Lúðvígsson, lögfræðingur fjölskyldunnar, segir í samtali við mbl.is að fjölskyldan hafi einnig ekki viljað fá á sig endurkomubann til landsins og því sé það hluti af ástæðunni fyrir því að þau velja að fara sjálfviljug úr landi. Hefði lögregla þurft að fjarlægja þau með valdi stæði fjölskyldan sem sagt frammi fyrir endurkomubanni.
„Fyrst og fremst eru þau markeruð eftir aðferðir lögreglu síðast og treysta sér ekki í slíkt aftur,“ segir Albert.
Albert gerir ráð fyrir því að fjölskyldan fari fljótlega úr landi vegna þess að hún á fund með Útlendingastofnun á fimmtudag til að skipuleggja brottförina.