Dagskrá kvennaverkfalls 2023 á Akureyri fór fram með pomp og prakt á Ráðhústorginu í dag undir yfirskriftinni: Kallarðu þetta jafnrétti?
Vel var mætt á torgið og að sögn Erlu Hrannar Unnsteinsdóttur, framkvæmdastýru Aflsins á Akureyri, sem kom að skipulagningu dagskrárinnar, var frábær stemning og mikill baráttuhugur í konum og kvárum.
„Við fylltum torgið og náðum vel upp göngugötuna. Það var boðið upp á þétta dagskrá sem Sesselía í Vandræðaskáldum hélt utan um,“ segir Erla í samtali við mbl.is.
Meðal þeirra sem komu fram var Skandall, hljómsveit Femínistafélagsins í Menntaskólanum, hljómsveitin Drottningarnar, Kvennakór Akureyrar og Vilhjálmur Bragason úr Vandræðaskáldum.
Þá segir Erla að Ásta Flosadóttir hafi haldið áhrifamikið ávarp, „þannig að dagskráin var mjög flott. Það var mikill baráttuhugur í okkur. Við erum alveg komnar með nóg.“
Linda Björk var ein af þeim sem tók þátt í samstöðufundinum á Ráðhústorgi í dag. Linda sagðist ánægð með fundinn og mætinguna. Hún treysti sér ekki til að slá á fjöldann en sagði vel hafa verið mætt á torgið.
„Það var góð samstaða og vel tekið undir í ræðunum. Svo voru flott tónlistaratriði og Gerður Ósk Hjaltadóttir stýrði dansi, þetta var vel heppnað og mjög skemmtilegt.“ Linda vildi sérstaklega minnast á erindi frá Ástu Flosadóttur sem hún sagði að hafa verið mjög flott.
„Ég tengdi mjög vel við erindi Ástu en við erum á svipuðum aldri. Ég kannaðist við margt sem hún hafði að segja.“