Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ákveðið að úthluta styrkjum til sex verkefna á sviði jafnréttismála en heildarfjárhæð styrkjanna er tíu milljónir króna.
Styrkirnir eru veittir á grundvelli reglna um úthlutun styrkja sem forsætisráðherra veitir til verkefna og viðburða á sviði jafnréttismála.
Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir að styrkirnir hafi verið auglýstir 5. október en alls bárust 13 umsóknir og var heildarfjárhæð sem sótt var um 34 milljónir króna. Fram kemur að starfshópur í forsætisráðuneytinu hafi farið yfir umsóknir og gert tillögu um úthlutun til forsætisráðherra.
Þau verkefni sem hljóta styrk að þessu sinni eru:
- Vottunarkerfi fyrir fagfólk sem sinnir kynfræðslu – 2 milljónir króna
Verkefni á vegum Kynís, Kynfræðifélags Íslands, um gerð vottunarkerfis fyrir fagfólk sem sinnir kynfræðslu í skólum, til almennings og stofnana.
- HeForShe herferð – 1,5 milljónir króna
Ný HeForShe herferð á vegum UN Women þar sem markmiðið er að ná til og virkja karla á Íslandi í jafnréttisbaráttunni með jákvæðri karlmennsku.
- Ofbeldismenn á Íslandi – 1,5 milljónir króna
Átak á vegum Stígamóta á samfélagsmiðlum til vitundarvakningar í kjölfar ráðstefnunnar Ofbeldismenn á Íslandi sem fram fór 12. október sl.
- Kynjuð menningarmiðlun: Lífsleiðir og verk listakvenna og kynsegin listafólks – 1,5 milljónir króna
Verkefni á vegum Flóru menningarhúss á Akureyri sem snýr að rannsóknum, eftirvinnslu og framsetningu á verkum listakvenna og kynsegin listafólks af ólíkum kynslóðum sem tengjast húsinu Sigurhæðir.
- Fræðsla um viðeigandi aðlögun á vinnustað – 1,5 milljónir króna
Verkefni á vegum Þroskahjálpar um fræðslu til fyrirtækja um viðeigandi aðlögun á vinnustað til að gera þau betur í stakk búin að taka á móti fötluðum einstaklingum til starfa.
- Endómetríósa: Ekki bara slæmir túrverkir – 2 milljónir króna
Gerð heimildarmyndar og kynningarherferðar á vegum Samtaka um endómetríósu til að vekja athygli og auka vitund á sjúkdómnum.