Kona á áttræðisaldri hefur krafið Vestmannaeyjabæ um afsökunarbeiðni og greiðslu þriggja milljóna króna í miskabætur vegna samskipta við starfsfólk bæjarins. Það er Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður sem hefur sent Vestmannabæ umrætt kröfubréf og gefur átta daga frest til að bregðast við eigi ekki að koma til málshöfðunar.
Í kröfubréfinu er staðhæft að konan hafi mátt þola ítrekaða lítillækkandi og meiðandi framkomu af hálfu starfsfólks bæjarins. Kveðst hún telja að framkoman eigi sér rætur í fordómum í hennar garð vegna húðlitar hennar og/eða trúarbragða. Konan er upprunalega frá Íran og er múhameðstrúar.
Meðal þess sem rakið er í bréfinu er að konan hafi í tvígang verið flutt hreppaflutningum til Reykjavíkur án sýnilegrar ástæðu og að henni hafi ítrekað verið sendur matur sem innihaldi svínakjöt sem hún geti ekki borðað af trúarástæðum.
DV greindi fyrst frá málinu.