Kynsegin fólk og konur jaðarsett af feðraveldinu

„Við sem erum kynsegin upplifum oft útskúfun úr samfélaginu og …
„Við sem erum kynsegin upplifum oft útskúfun úr samfélaginu og afneitun á okkar tilveru,“ sagði Urður í ræðu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Urður Bartels, stálp sem er nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð, hélt fyrstu ræðu dagsins á baráttufundi við Arnarhól í Reykjavík sem hófst klukkan 14 í dag.

Þau sögðu í ræðu sinni að kynsegin fólk og konur eigi það sameiginlegt að vera jaðarsett af feðraveldinu. Framlag þeirra sé vanmetið og þau verði fyrir kynferðisofbeldi í miklu meira mæli en karlmenn.

Auk þess virðist kynsegin einstaklingar oft ósýnilegir innan samfélagsins, til dæmis innan Hagstofu Íslands, sem gerir bara ráð fyrir konum og körlum.

„Við sem erum kynsegin upplifum oft útskúfun úr samfélaginu og afneitun á okkar tilveru,“ sagði Urður.

„Hvort sem við erum konur, kvár eða stálp krefjumst við jafnréttis á öllum sviðum. Við erum hér saman komin til að mótmæla feðraveldinu. Við erum öll á sama báti og með sameiginlegu átaki getum við gert samfélagið réttlátara og sanngjarnara fyrir alla.“

Faraldur kynferðisofbeldis

Boðað var til verkfalls nú þegar 48 ár eru liðin frá fyrsta kvennafrídeginum, en þetta er í sjötta skiptið sem konur leggja niður störf að hluta eða öllu leyti á þessum degi.
Bæði konur og kvár voru hvött til að leggja niður störf í tilefni dagsins.

Urður, sem notar fornafnið þau, sagði í ræðu sinni mikilvægt að unga fólkið tæki þátt í baráttunni, sem væri jafnframt næsta kynslóðin sem færi inn á vinnumarkaðinn. Kjaramisréttið myndi næst bitna á þeim, að sögn þeirra.

„Kynbundið og kynferðis ofbeldi er eins og faraldur sem er aðeins að aukast og aukast, og meðalaldur þolenda er aðeins að verða yngri og yngri. Rannsóknir sýna að á Íslandi hafi 15% af stúlkum í 10. bekk í grunnskóla verið nauðgað af jafnaldra sínum. Kallarðu þetta réttlæti?,“ spurði Urður og kölluðu þúsundir kvenna og kvára í kór „nei“.

Gerendur ekki fórnarlömb

„Eins sorglegt og það er, er staðreyndin sú að kynferðisbrot eru oftast framin af einhverjum sem við þekkjum og treystum. Þetta gerir málið svo oft miklu flóknara fyrir þolendur að segja frá og leita aðstoðar.

Það er svo gríðarlega oft talað um að þolendur séu að eyðileggja orðspor geranda þegar þau segja frá. En þolendur eru aldrei að eyðileggja orðspor geranda, heldur var það gerandinn sem eyðilagði fyrir sjálfum sér.

Gerendameðvirkni er alltof algeng og svo gríðarlega eitruð, gerendurnir eru ekki fórnarlömbin, þolendurnir eru það. Kynferðisofbeldi er faraldur og það verður að grípa til aðgerða í samræmi við það.“

Meingallað réttarkerfi

Urður sagði að réttarkerfið á Íslandi væri meingallað, og sagði til skammar hvernig tekið væri á kynferðisbrotamálum.

„Það er algjörlega óásættanlegt að kæra taki oft mörg ár að fara í gegn og oftar en ekki er málið svo fellt niður. Réttarkerfið er ekki að taka á slíkum málum að alvöru, sem endurspeglar þann ósanngjarna raunveruleika sem konur og kvár lifa í.

Oft nýta gerendur sér þetta brotna kerfi og kæra þolendur fyrir meinyrði, og heldur því ofbeldið og þöggunin áfram. Kæruferlið er því oft annað áfall fyrir þolendur. Kallarðu þetta jafnrétti?,“ spurði Urður í annað sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert