Kynsegin fólk og konur jaðarsett af feðraveldinu

„Við sem erum kynsegin upplifum oft útskúfun úr samfélaginu og …
„Við sem erum kynsegin upplifum oft útskúfun úr samfélaginu og afneitun á okkar tilveru,“ sagði Urður í ræðu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Urður Bartels, stálp sem er nem­andi í Mennta­skól­an­um við Hamra­hlíð, hélt fyrstu ræðu dags­ins á bar­áttufundi við Arn­ar­hól í Reykja­vík sem hófst klukk­an 14 í dag.

Þau sögðu í ræðu sinni að kynseg­in fólk og kon­ur eigi það sam­eig­in­legt að vera jaðar­sett af feðraveld­inu. Fram­lag þeirra sé van­metið og þau verði fyr­ir kyn­ferðisof­beldi í miklu meira mæli en karl­menn.

Auk þess virðist kynseg­in ein­stak­ling­ar oft ósýni­leg­ir inn­an sam­fé­lags­ins, til dæm­is inn­an Hag­stofu Íslands, sem ger­ir bara ráð fyr­ir kon­um og körl­um.

„Við sem erum kynseg­in upp­lif­um oft út­skúf­un úr sam­fé­lag­inu og af­neit­un á okk­ar til­veru,“ sagði Urður.

„Hvort sem við erum kon­ur, kvár eða stálp krefj­umst við jafn­rétt­is á öll­um sviðum. Við erum hér sam­an kom­in til að mót­mæla feðraveld­inu. Við erum öll á sama báti og með sam­eig­in­legu átaki get­um við gert sam­fé­lagið rétt­lát­ara og sann­gjarn­ara fyr­ir alla.“

Far­ald­ur kyn­ferðisof­beld­is

Boðað var til verk­falls nú þegar 48 ár eru liðin frá fyrsta kvenna­frí­deg­in­um, en þetta er í sjötta skiptið sem kon­ur leggja niður störf að hluta eða öllu leyti á þess­um degi.
Bæði kon­ur og kvár voru hvött til að leggja niður störf í til­efni dags­ins.

Urður, sem not­ar for­nafnið þau, sagði í ræðu sinni mik­il­vægt að unga fólkið tæki þátt í bar­átt­unni, sem væri jafn­framt næsta kyn­slóðin sem færi inn á vinnu­markaðinn. Kjaram­is­réttið myndi næst bitna á þeim, að sögn þeirra.

„Kyn­bundið og kyn­ferðis of­beldi er eins og far­ald­ur sem er aðeins að aukast og aukast, og meðal­ald­ur þolenda er aðeins að verða yngri og yngri. Rann­sókn­ir sýna að á Íslandi hafi 15% af stúlk­um í 10. bekk í grunn­skóla verið nauðgað af jafn­aldra sín­um. Kall­arðu þetta rétt­læti?,“ spurði Urður og kölluðu þúsund­ir kvenna og kvára í kór „nei“.

Gerend­ur ekki fórn­ar­lömb

„Eins sorg­legt og það er, er staðreynd­in sú að kyn­ferðis­brot eru oft­ast fram­in af ein­hverj­um sem við þekkj­um og treyst­um. Þetta ger­ir málið svo oft miklu flókn­ara fyr­ir þolend­ur að segja frá og leita aðstoðar.

Það er svo gríðarlega oft talað um að þolend­ur séu að eyðileggja orðspor ger­anda þegar þau segja frá. En þolend­ur eru aldrei að eyðileggja orðspor ger­anda, held­ur var það ger­and­inn sem eyðilagði fyr­ir sjálf­um sér.

Gerendameðvirkni er alltof al­geng og svo gríðarlega eitruð, gerend­urn­ir eru ekki fórn­ar­lömb­in, þolend­urn­ir eru það. Kyn­ferðisof­beldi er far­ald­ur og það verður að grípa til aðgerða í sam­ræmi við það.“

Meingallað rétt­ar­kerfi

Urður sagði að rétt­ar­kerfið á Íslandi væri meingallað, og sagði til skamm­ar hvernig tekið væri á kyn­ferðis­brota­mál­um.

„Það er al­gjör­lega óá­sætt­an­legt að kæra taki oft mörg ár að fara í gegn og oft­ar en ekki er málið svo fellt niður. Rétt­ar­kerfið er ekki að taka á slík­um mál­um að al­vöru, sem end­ur­spegl­ar þann ósann­gjarna raun­veru­leika sem kon­ur og kvár lifa í.

Oft nýta gerend­ur sér þetta brotna kerfi og kæra þolend­ur fyr­ir meinyrði, og held­ur því of­beldið og þögg­un­in áfram. Kæru­ferlið er því oft annað áfall fyr­ir þolend­ur. Kall­arðu þetta jafn­rétti?,“ spurði Urður í annað sinn.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert