„Svona erum við sterk saman“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir kvennafrídaginn hafa gengið eins …
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir kvennafrídaginn hafa gengið eins og í sögu. Samsett mynd/aðsend/Eggert Jóhannesson

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir kvennaverkfallið og kvennafrídaginn hafa gengið eins og í sögu.

„Ég held það sé alveg óhætt að segja það að þetta hafi farið fram úr björtustu væntingum okkar sem komu að skipulagningunni,“ segir Sonja Ýr í samtali við mbl.is.

„Við vorum búin að finna fyrir mjög mikilli stemmningu og að það væri vaxandi óþol – það væri þörf á því að setja jafnréttismál á oddinn. Þegar 70-100 þúsund manns koma saman á Arnarhóli og víðs vegar um landið allt, að þá er maður eiginlega hálf orðlaus. Svona erum við sterk saman.“

Engin „jafnréttisparadís“

Sonja Ýr segir að þegar ákvörðun um að boða til kvennaverkfalls hafi verið tekin af samtökunum sem standa að baki verkfallinu, hafi verið ákveðið að gera það eins og árið 1975 til þess að sýna að konur og kvár eru búin að fá nóg af ástandinu.

Hún segir umræðu hafa verið áberandi upp á síðkastið þar sem gefið er til kynna að jafnrétti hafi þegar verið náð á Íslandi vegna góðrar stöðu í alþjóðlegum mælingum.

„Þessi hugmynd um jafnréttisparadís er að okkar mati að ýta gegn allri vinnu sem þarf að fara í til þess að tryggja jafnrétti.“

Krafa um róttækar aðgerðir

„Ég hugsa að það sé ástæðan fyrir þátttökunni af því að það finna það flest að það eru ekki framsæknar eða róttækar aðgerðir sem er verið að grípa til. Það er auðvitað krafan núna.

Þegar það koma svona mörg saman og sýna með svona skýrum og áþreifanlegum hætti að þessu verður að breyta þá mun samfélagið breytast í kjölfarið,“ segir Sonja.

Gerð var ályktun fundarins í dag með kröfum þeirra sem standa að baki kvennaverkfallinu. Sonja segir að krafan nú sé krafan sú að stjórnmálafólk og aðrir sem hafa völd í samfélaginu hlusti á þær kröfur og geri þær að sýnum og fylgi þeim eftir í sínu daglega starfi.

Ályktun fundarins í heild sinni:

Kvennaverkfall 24. október 2023!

Við krefjumst leiðréttingar á vanmati „svokallaðra“ kvennastarfa!

Að atvinnurekendur hætti að veita sér afslátt á launum kvenna og kvára!

Við krefjumst sértækra aðgerða til þess að leiðrétta kjör þeirra kvenna og kvára sem lægstar tekjur hafa, því engin á að þurfa að lifa við fátækt!

Við krefjumst þess að launamisrétti og mismunun verði útrýmt!

Að konur og kvár geti lifað af launum sínum og fái tækifæri til að þróast í starfi til jafns við karla!

Að fatlaðar konur og kvár hafi tækifæri til atvinnuþátttöku til að geta bætt kjör sín!

Að menntun og hæfni kvenna af erlendum uppruna sé metin að verðleikum!

Að konum og kvárum verði ekki lengur refsað fjárhagslega fyrir þá ólaunuðu umönnunarábyrgð sem þau axla yfir ævina og gjalda fyrir þegar á lífeyrisaldur er komið.

Að gert verði samfélagslegt átak til að útrýma fordómum gegn fólki með fötlun, hinsegin fólki, fólki af erlendum uppruna og öðrum jaðarhópum.

Við krefjumst þess að karlar taki ábyrgð á við konur og kvár!

Taki ábyrgð á ólaunuðum heimilisstörfum og við umönnun fjölskyldumeðlima!

Taki ábyrgð á ólaunaðri þriðju vaktinni!

Við krefjumst þess að konur og kvár séu ekki í fjárhagslegum fjötrum ofbeldismanna!

Að konur og kvár fái stuðning við að byggja upp fjárhagslegt sjálfstæði eftir að hafa lifað af kynbundið fjárhagslegt ofbeldi! 

Við krefjumst réttlætis og réttarbóta fyrir þolendur kynferðislegs og kynbundins ofbeldis!

Að ofbeldismenn sæti ábyrgð og kynfrelsi sé virt!

Að konur og kvár njóti öryggis og frelsi frá ofbeldi og áreitni í vinnunni, heima og í almannarými!

Að kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi verði útrýmt!

Við krefjumst þess að stjórnmálin geri kröfur Kvennaverkfalls að forgangsmáli!

STRAX!

VIÐ KREFJUMST AÐGERÐA OG BREYTINGA!

NÚNA!

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert