Troðfullt og margir stóðu úti á götu

Troðfullt var á samstöðufundi BHM.
Troðfullt var á samstöðufundi BHM. mbl.is/Viðar

Færri komust að en vildu í Bíó Paradís þegar BHM hélt sinn samstöðufund. Ræðuhöld, tónlistaratriði og samsöngur voru meðal annars það sem boðið var upp á. 

„Áfram stelpur“ ómaði út á götu þegar blaðamann bar að garði. Elísa Jóhannsdóttir, fræðslu og kynningarfulltrúi hjá BHM botnaði daginn áður en haldið verður að Arnarhóli þar sem samstöðufundur kvennafrídagsins er haldinn. 

Áætla má að  vel á þriðja hundrað hafi verið á svæðinu og Elísa segir að það hafi komið henni á óvart hve margir komu. „Það er rosalega mikill meðbyr í samfélaginu og þetta væri ekki svona ef konur og kvárar finndu sig ekki í því sem verið er að segja,“ segir Elísa. 

Hún segir að me too byltingin hafi haft sitt að segja og síendurteknar launakannir sem sýna kynbundin launamun. „Það eru margir búnir að fá nóg,“ segir Elísa. 

Elísa, Vigdís og Þorgerður skömmu eftir að fundi lauk.
Elísa, Vigdís og Þorgerður skömmu eftir að fundi lauk. mbl.is/Viðar

Æðisleg stemning

Meðal þeirra sem tróð upp var Vigdís Hafliðadóttir, úr hljómsveitinni Flott, og Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir tónskáld. 

„Það var æðisleg stemning. Fullt af fólki mætt og sungið saman og þetta var rosalega gaman,“ segir Vigdís. Hún segist sjálf hafa mætt áður á kvennafrídaginn en finni fyrir sérstaklega miklum meðbyr og stemningu nú.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert