Jarðskjálfti af stærðinni 3,9 varð um hálfsexleytið í morgun um 1 km norðvestan við Þorbjörn á Reykjanesi. Jarðskjálftahrina hófst á svipuðum slóðum eftir miðnætti.
Áfram mælist talsverð jarðskjálftavirkni á svæðinu. Jarðskjálftinn fannst vel í Grindavík og víðar á Suðurnesjum, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir mikla smáskjálftavirkni hafa verið víða á Reykjanesskaganum frá miðnætti, bæði við Þorbjörn og Fagradalsfjall.
Spurður segir hann rúmlega 450 skjálfta hafa mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti.
Enginn gosórói hefur mælst.
„Það er mjög mikill skjálftaórói eins og er og við fylgjumst náið með stöðunni í dag og hver þróunin verður,” segir Einar.