557 friðlýst hús og 37 þúsund fornleifar

Þingvellir.
Þingvellir. Ljósmynd/Aðsend

Starfshópur um stöðumat á framkvæmd minjaverndar hefur sett fram lykilþætti og tillögur til úrbóta í 12 liðum í nýútkominni skýrslu sinni.

Lykilþættirnir og tillögurnar snúa meðal annars að eflingu grunnrannsókna, kortlagningar á minjum og menningarlandslagi og að gert verði átak í að auka áhuga almennings á minjum.

250 til 300 þúsund

Fram kemur í skýrslunni að heildarumfang jarðfastra fornleifa á Íslandi sé óljóst. Áætlað hefur verið að talan hlaupi á bilinu 250 til 300 þúsund á landinu öllu.

Nýleg skráningarverkefni í ósnortnum eyðibyggðum benda til þess að heildarfjöldinn gæti þó verið mun hærri.

Í mars síðastliðnum var heildarfjöldi skráðra fornleifa á Íslandi nálægt 37 þúsund.

Friðlýst hús og mannvirki eru 557 talsins og aldursfriðuð hús sem bera fastanúmer eru 4.124 talsins. Umsagnarskyld hús, þ.e. hús byggð á árunum 1924 til 1940, eru 8.935 talsins.

Samtals eru þetta því um 13.000 hús sem falla undir lög um menningarminjar.

Starfshópur skipaður í janúar

Starfsópurinn var skipaður af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í janúar síðastliðnum til að greina stöðu minjaverndar og mögulegar úrbætur. Kynning á skýrslunni, sem er 93 blaðsíðna löng, hófst í Hannesarholti klukkan 11 í morgun.

Starfshópurinn, þar sem Birgir Þórarinsson var formaður, setti sér það markmið að öðlast innsýn í ástand og vöktun menningarminja á Íslandi og tilgreina þá minjaflokka, minjaheildir og minjastaði sem álitið er að séu í mestri hættu á að glata minjagildi sínu eða tapast að miklu leyti á næstu árum.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einnig vildi hópurinn draga fram helstu áskoranir við minjavörslu og greina hvar tækifæri til umbóta liggja og greina stöðu, þróun og helstu áskoranir hinna tveggja lögbundnu sjóða á sviði menningarminja á tímabilinu 2013-2023, þ.e. Húsafriðunarsjóðs og Fornminjasjóðs.

Lykilþættir og tillögur starfshópsins til úrbóta:

  1. Veita þarf almenningi ríkari aðkomu að minjavernd. Það á m.a. við varðandi tillögur að friðlýsingu á stöðum, minjum og byggingum. Slíkt myndi stuðla að vandaðri stjórnsýslu og auka líkur á sátt um ákvarðanir. Fækka þarf hindrunum og auka þarf áhuga á minjum hjá ungu fólki. 
  2. Forsendur friðlýsingar þurfa að vera skýrar og ástæður friðlýsingarinnar sömuleiðis. Endurskoða þarf friðlýsingaskrá á þriggja ára fresti í samræmi við lög menningarminjar og sinna þarf lágmarksviðhaldi á slíkum stöðum.
  3. Búa þarf rannsóknum á sviði minjaverndar og varðveislu menningararfs sambærilega umgjörð og rannsóknum á sviði náttúruvísinda. Tryggja þarf að öflugt rannsóknarstarf styðji við málaflokkinn.
  4. Tryggja þarf að fyrirhuguð sameining Minjastofnunar Íslands og stofnana sem hafa umsjón með friðlýstum svæðum leiði ekki til aukinnar fjarlægðar frá öðrum menningarstofnunum sem sinna málefnum menningararfs.
  5. Grunnrannsóknir á sviði minjavörslu ættu að vera grunnur að gerð aðalskipulags sveitarfélaga líkt og skilyrt er í núgildandi  minjalögum. Liggja skuli fyrir upplýsingar sem gefa greinargóða mynd af menningarminjum innan sveitarfélagsins.
  6. Vernda þarf merkar nýminjar í lögum og minnka líkur á því að þær tapist.
  7. Fjölga þarf hvötum til þess að vernda minjar. Þetta á við um alla minjaflokka, s.s. trébáta, fornleifar í jörðu og eldri hús.
  8. Vinna fari í gang varðandi græna hvata til varðveislu húsa í tengslum við loftslagsmál og hringrásarhagkerfið. Oft væri hægt að nýta burðarvirki húsa þó að þau séu rifin að öðru leyti.
  9. Samþætta þarf mótvægisaðgerðir vegna loftslagsvár við minjavernd svo tryggt sé að minjum sé ekki ógnað vegna þeirra.
  10. Skilgreina þarf árangur í minjavernd á víðtækari hátt. Skrá þarf ástand aldursfriðaðra húsa og annarra mannvirkja, þar með talið í verndarsvæðum í byggð.
  11. Minnka þarf áhrif fjárhagslegs bolmagns sveitarfélaga og annarra verkkaupa á gæði og framkvæmd fornleifaskráningar og framkvæmdarannsókna.
  12. Huga þarf sérstaklega að vernd þeirra minjaflokka sem eru í hættu á því að tapast á næstu árum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert