Edda Björk Arnardóttir, sem nam syni sína þrjá á brott frá Noregi í óþökk föður þeirra, var handtekin fyrr í dag. Henni hefur þó verið sleppt eftir að aðfarargerð á heimili þeirra var frestað eftir að synir hennar neituðu að fara. Stjúpfaðir drengjanna var líka handtekinn. Þetta herma heimildir mbl.is.
Edda nam syni sína brott í mars síðasta ári og hafa þeir búið hjá henni á Íslandi síðan. Faðirinn er íslenskur en hefur búið í Noregi um árabil og bjó öll fjölskyldan þar áður en Edda og barnsfaðir hennar skildu. Norskur dómstóll úrskurðaði að drengirnir skyldu hafa lögheimili hjá föður sínum og að hann skyldi einn fara með forsjá þeirra.
Fyrr á þessi ári staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, að synirnir skyldu teknir úr umsjá Eddu og þeir færðir aftur til föður síns í Noregi, þvert gegn vilja sínum. Hefur Edda þó kært niðurstöðu íslenskra dómstóla til Mannréttindadómstóls Evrópu en bíður enn niðurstöðu um hvort málið verði tekið fyrir eða ekki.
Viðmælandi mbl.is, sem vill ekki koma fram undir nafni, segir að Edda hafi verið að semja við yfirvöld um að framkvæmd aðfarargerðarinnar í samstarfi við drengina og að þeir fengju þá sjálfir að tjá sig um þessa stóru ákvörðun í þeirra lífi.
Drengirnir, tvíburar á þrettánda ári og tíu ára bróðir þeirra, hafa allir greint skýrt frá því í samtölum við dómkvaddan matsmann að þeir vilji búa hjá móður sinni á Íslandi og kom það fram í mati sálfræðings fyrir dómi að það gæti valdið drengjunum vanlíðan og kvíða að vera færðir aftur til föður síns.
Þrír lögreglubílar, á vegum sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu, mættu á vettvang fyrir utan heimili fjölskyldunnar síðdegis í dag og aðgerðirnar stóðu yfir í rúma tvo tíma. Þá var einnig lokað fyrir umferð við götuna.
Lögreglumenn eru nú farnir af vettvangi þar sem aðfarargerðinni var frestað eftir að synir hennar neituðu að gefa sig á hendur lögreglu.
Þá var Eddu og stjúpföður drengjanna sleppt en þau sitja nú heima í geðshræringu, óviss um það hvenær lögreglan kemur aftur.
Uppfært kl. 20.45: Faðir drengjanna var einnig á vettvangi og fékk leyfi lögreglu til þess að ganga sjálfur inn á heimili fjölskyldunnar. Heimildir mbl.is herma að hann hafi þar safnað ýmsum eigum fjölskyldunnar ofan í poka, þar á meðal fartölvu Eddu. Þetta hafi hann gert beint fyrir framan nefið á lögreglumönnunum.
Uppfært kl. 20.54: Bætt við að lögregluaðgerðirnar sem hér um ræðir eru í umboði sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu, ekki lögreglunnar.