Fara fram á lengra gæsluvarðhald

Kona um fertugt situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins.
Kona um fertugt situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hyggst fara fram á að gæsluvarðhald yfir konu, sem grunuð er um að hafa orðið karlmanni á sextugsaldri að bana í fjölbýlishúsi við Bátavog, verði framlengt um fjórar vikur.

Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá miðlægri rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.

Konan, sem er um fertugt, var handtekin á vettvangi þar sem karlmaðurinn fannst látinn í síðasta mánuði. Gæsluvarðhald yfir konunni átti að renna út í dag.

Ævar Pálmi segir málið umfangsmikið en rannsókninni hafi miðað þokkalega. Búið sé að yfirheyra marga og sé flestum skýrslutökum nú lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert