Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, segir þróunina á Reykjanesskaganum athyglisverða en svo virðist sem kvika sé að leita sér leiðar í gegnum sömu aðfærsluæð og í fyrri eldgosum á svæðinu.
Hann segir útlit fyrir að sama ferli sé að endurtaka sig og fyrir þrjú síðustu eldgos nema hugsanlega sé þróunin hraðari í þetta skiptið.
Gæti það m.a. skýrst af því að fyrri eldgos séu búin „að liðka fyrir“ og þarf því ekki eins mikinn þrýsting til að mynda kvikugang. „Það er búið að smyrja lamirnar,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.
Um þúsund jarðskjálftar hafa mælst í grennd Þorbjörn og Fagradalsfjall frá miðnætti. Gögn Veðurstofu Íslands benda til þess að um sé að ræða gikkskjálfta vegna kvikusöfnunar undir Fagradalsfjalli.
Hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar sem er enn í gangi.
„Þetta er leiðin sem kvikan er að koma í áttina að yfirborðinu frá meira dýpi og það er eins og kvikan sem hefur verið að koma upp á undanförnum árum. [...] Það er verið að margnota þessa leið. Hvað það þýðir er náttúrulega mjög áhugaverð spurning. Er virknin að búa sér til stöðuga leið til yfirborðs? Ef það tekst gætum við fengið mjög langvinnt gos – ef að þú ert kominn með aðfærslugang sem er alltaf tiltölulega opinn eða er auðvelt að opna. Mér finnst það vera athyglisverðast í þessu öllu saman.“