Hækka þarf laun þeirra launalægstu og leiðrétta laun kvennastétta, að sögn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. Hann telur þó jafnframt mikilvægt að veita „grænum kjarasamningum“ aukna athygli í komandi kjaraviðræðum.
Þetta kom fram í máli ráðherra við setningu þings Starfsgreinasambands Íslands (SGS). Þetta er níunda þing sambandsins og er það haldið á Hótel Reykjavík Natura. Þingið stendur yfir fram á föstudag.
Í ræðu sinni snerti Guðmundur Ingi á ýmsum málum, m.a. velferðarkerfinu á Íslandi, aðstæðum á húsnæðismarkaði, málefnum innflytjenda og ekki síst komandi kjarasamningsviðræðum.
„Í aðdraganda kjarasamninga er ég iðulega spurður að því hvað mér finnist og hvað ég vilji,“ sagði Guðmundur og benti á slaka efnahagsástandið hér á landi – háa vexti, verðbólgu húsnæðiskort og að aldrei hafi fleiri sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Samt sé margt hagfelldara á Íslandi en í nágrannalöndum, sérstaklega atvinnuástandið.
„Án þess að blanda mér inn í kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði þá vil ég deila með ykkur þeirri pólitísku sýn minni að hækka þurfi sérstaklega laun þeirra launalægstu og leiðrétta laun kvennastétta,“ sagði ráðherra en benti jafnframt á að einnig væri mikilvægt að veita svokölluðum „grænum kjarasamningum“ og „réttlátum grænum umskiptum“ meiri athygli þegar kemur að kjaraviðræðum.
„Þótt kjör fólks og húsnæði skipti mestu máli á tímum verðbólgu og hárra vaxta þá hleypur hin stóra loftslagsáskorun ekkert frá okkur og til þess að ná markmiðum okkar í loftslagmálum þarf viðhorfsbreytingu á öllum sviðum, líka þegar kemur að hlutverki og ábyrgð aðila vinnumarkaðarins. Við þurfum að tryggja að þau umskipti sem framundan eru verði réttlát, og bitni ekki meira á þeim sem minna hafa.“
Þá sagði Guðmundur einn mikilvægan anga af vinnumarkaðinum vera framhaldsfræðslu, sem væri „sérstaklega mikilvæg sem liður í aðlögun samfélagsins að tæknibreytingum og loftslagsbreytingum“.
„Ef við lítum nokkra áratugi aftur í tímann þá sjáum við að margt hefur breyst. Það er ekki svo langt síðan að reglan var sú að fólk menntaði sig eða þjálfaðist á einu sviði og svo vann það bara á því sviði allan sinn starfsaldur,“ sagði hann.
Í dag sé þó staðan önnur. Það sé mun algengara að fólk skipti örar um starf og eigi jafnvel góð starfsár á nokkrum sviðum. Því sé nauðsynlegt að efla framhaldsfræðslu og þar með auka menntunarstig í landinu.
„Þá legg ég áherslu á að framhaldsfræðslan nái enn betur utan um fatlað fólk og innflytjendur, og vil þar sérstaklega nefna íslenskunám innflytjenda. Tungumálið er lykillinn að samfélaginu, og íslenska sem annað mál fyrir innflytjendur finnst mér að eigi að geta farið fram á vinnutíma og á kostnað atvinnurekanda, sem sjálfsögð fjárfesting í mannauði.“
Guðmundur sagði að verkalýðshreyfingin hefði alla tíð látið sig málefni innflytjenda varða – málaflokk sem hefur stækkað mikið á umliðnum árum.
Benti hann á að innflytjendur á Íslandi væru í dag um 18% íbúa á Íslandi og atvinnuþátttaka þeirra rúmlega 84% sem er hæsta hlutfall innan OECD ríkja. Þá væru einungis um 10% innflytjenda flóttafólk, en helmingur þeirra kom á síðasta ári.
Unnið væri nú að stefnumótun sem feli m.a. í sér aðgerðir vegna stöðu innflytjenda og flóttafólks á vinnumarkaði, einföldun á útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa og aðgerðir sem hafa til að jafna tækifæri á vinnumarkaði og að draga úr atvinnuleysi á meðal innflytjenda.
„Verkalýðshreyfingin er og verður mikilvægur samstarfsaðili, ég fullyrði sá mikilvægasti, í því verkefni,“ sagði Guðmundur Ingi.