Líkur á tíðari skjálftahrinum

Kvika safnast fyrir á 13 til 17 kílómetra dýpi.
Kvika safnast fyrir á 13 til 17 kílómetra dýpi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skjálftahrinan við Fagradalsfjall og Þorbjörn skýrist líklega af spennubreytingum vegna landriss við Fagradalsfjall sem veldur landbreytingum víða á Reykjanesskaga. Eru þetta að öllum líkindum svokallaðir gikkskjálftar.

Þetta segir Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, sér­fræðing­ur Veður­stof­u Íslands í jarðskorpu­hreyf­ing­um.

Ríflega þúsund skjálftar hafa mælst á svæðinu við Þorbjörn og Fagradalsfjall frá miðnætti. Benedikt segir að svo virðist sem skjálftahrinan sé á niðurleið en tekur þó fram að virknin geti tekið sig upp að nýju.

Fyrr í dag lýsti rík­is­lög­reglu­stjóri í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ann á Suður­nesj­um yfir óvissu­stigi al­manna­varna vegna jarðskjálfta­hrin­unn­ar.

Benedikt segir íbúa mega búa sig undir að skjálftahrinur verði tíðari eftir því sem þensla á Reykjanesskaganum heldur áfram.

Viðvarandi landris

Eins og mbl.is greindi frá í síðasta mánuði birtust skýr merki um landris undir Fagradalsfjalli skömmu eftir að eldgosinu við Litla-Hrút lauk í ágúst. Síðustu mælingar benda til þess að kvika sé að safnast þar á 13 til 17 kílómetra dýpi. „Þetta er svona í neðri hluta skorpunnar. Þetta er mjög djúpt eins og er,“ segir Benedikt.

Landrisið, eða þenslan, hefur verið viðvarandi, að sögn Benedikts, og stendur það nú í 4 sentímetrum þar sem það er hæst.

Spurður hvort miklar breytingar hafi orðið á hraða þess á síðustu dögum, svarar Benedikt því neitandi. Það hafi þó frekar hert á sér með tíma heldur en hitt.

Kvikuhreyfingar ólíkleg útskýring

Að sögn Benedikts gefa mælingar ekki til kynna að kvikan sé að færa sig nær yfirborðinu heldur virðist hún enn þá vera að safnast fyrir á einum stað.

Hann kveðst þó ekki geta útilokað að kvikuhreyfing valdi skjálftunum við Þorbjörn en telur það ólíklegt.

Hann segir líklegri skýringu vera þensluna undir Fagradalsfjalli sem valdi landbreytingum um allan Reykjanesskaga.

„Við megum alveg búast við að svona hrinur fari að færast í aukana eftir því sem þetta heldur áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert