Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra telur mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins nái skynsömum og ábyrgum kjarasamningum í næstu kjaraviðræðum. Samningar sem myndu fela í sér miklar launahækkanir yrðu áhyggjuefni en mesta kjarabótin fyrir fyrirtæki og fjölskyldur í landinu sé lækkun vaxtastigs.
„Það er aðila vinnumarkaðarins að semja um það sem er til skiptanna. Ég geng út frá því og geri ráð fyrir því að við séum sammála um að horfa á það hvað er til skiptanna og að aðilar vinnumarkaðarins finni út úr því sín á milli, hvernig því er skipt. Síðan vitum við að alla jafna þá kemur ríkisvaldið inn með einhverjum hætti á lokametrunum,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Ég heyri ekki annað en að það sé bæði sameiginlegur vilji, sameiginlegur skilningur og sameiginlegur metnaður að gera ábyrga og skynsama kjarasamninga til lengri tíma til þess að skapa forsendur og skýrar væntingar – réttmætar væntingar, um það að verðbólgan lækki þannig að vaxtastig lækki.“
Að sögn ráðherra er lækkun vaxtastigs langstærsta og öflugasta kjaramál fjölskyldna og fyrirtækja í landinu.
„Hvort sem það eru fjölskyldur með fasteignalán eða fólk sem er að láta sig dreyma um að komast inn á fasteignamarkaðinn – þá er lækkun vaxta mesta kjarabótin. Ég geri ráð fyrir og heyri ekki annað en að aðilar séu sammála um þetta. Ég veit að það verður erfitt en ég geng út frá því að við öll saman áttum okkur á hvaða ábyrgð við berum, hvert og eitt okkar.“
Væru launahækkanir á þessum tímapunkti áhyggjuefni?
„Það sem mér finnst skipta mestu máli er að við finnum út úr því hvað er til skiptanna og göngum ekki lengra en það. Samningar sem myndu fela í sér miklar hækkanir – það væri áhyggjuefni.“