Óvissustigi lýst yfir – Merki um kvikusöfnun

Fagradalsfjall.
Fagradalsfjall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar á Reykjanesskaga. Hrinan hófst snemma í morgun og er enn í gangi.

„Íbúar eru hvattir til þess að huga að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og huga sérstaklega að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni.  Veðurstofa Íslands hefur einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að sýna aðgát við brattar hlíðar,” segir í tilkynningunni.

Um 1.000 skjálftar

Um eitt þúsund jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu í kringum Þorbjörn og Fagradalsfjall frá miðnætti. Nýjustu gögn Veðurstofu Íslands benda til þess að um sé að ræða gikkskjálfta vegna kvikusöfnunar undir Fagradalsfjalli.

Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hún segir ekkert benda til þess að kvikuinnskot hafi myndast undir Fagradalsfjalli en að svo virðist sem eitthvað sé að malla við fjallið.

„Þetta er mun kröftugri hrina en hefur verið eftir síðasta gos,” segir Lovísa Mjöll og á þar við eldgosið við Litla-Hrút sem lauk 5. ágúst.

Af skjálftunum eitt þúsund hafa rúmlega 25 verið yfir tveimur að stærð. Stærsti skjálftinn mældist 4,5 að stærð á níunda tímanum í morgun og sá næststærsti 3,9. 

Spurð nánar út í kvikusöfnunina segir hún að bíða þurfi og sjá hvernig þróunin verður næstu daga, þ.e. hvort virknin hætti eða haldi áfram.

„Ef hún heldur áfram þá er spurning hvort þarna sé að myndast kvikuinnskot.”

Lovísa Mjöll segir skjálftana núna minna á þá sem urðu í kringum Þorbjörn á undan eldgosinu í Merardölum árið 2022.

Hún segir Veðurstofuna fylgjast áfram vel með gangi mála. Enginn sérstakur fundur hefur þó verið boðaður vegna stöðunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert