Skjálfti yfir fjórum að stærð norðan við Grindavík

Fjallið Þorbjörn við Grindavík.
Fjallið Þorbjörn við Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jarðskjálfti sem mældist yfir 4 að stærð varð 4 km norðan við Grindavík klukkan 8.18 í morgun. Hann fannst á Suðurnesjum en einnig á höfuðborgarsvæðinu.

Jarðskjálftinn fylgir í kjölfar annars skjálfta upp á 3,9 sem reið yfir á svipuðu svæði um hálfsexleytið í morgun. 

Að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, er ekki búið að fara yfir lokastærð skjálftans en miðað við fyrsta mat mældist hann 4,4 stig. Hann gæti þó hafa verið aðeins stærri.

Frá því í gærkvöldi hefur sjálfvirka kerfið á Veðurstofu Íslands numið um 700 skjálfta á Reykjanesskaga. Flestir hafa orðið norðan við Grindavík og við Fagradalsfjall.

Uppfært kl. 9.15:

Fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands að skjálftinn hafi mælst 4,5 að stærð.

„Áfram er talsverð smáskjálftavirkni á svæðinu og ekki er útilokað að skjálftar af svipaðri stærð og í morgun eigi sér stað aftur. Síðast mældust skjálftar af svipaðri stærðargráðu á Reykjanesskaga í júlí á þessu ári,” segir í tilkynningunni.

Meðfylgjandi mynd sýnir staðsetningu tveggja stærstu skjálftanna.
Meðfylgjandi mynd sýnir staðsetningu tveggja stærstu skjálftanna. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert