Vilja stöðva alla lundaveiði

Lundi er samkvæmt válistanum metinn í bráðri hættu.
Lundi er samkvæmt válistanum metinn í bráðri hættu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lagt er til að stöðva allar veiðar á lunda í nýútkominni skýrslu Náttúrustofu Suðurlands vegna langvarandi fækkun fugla í stofninum. Í skýrslunni kemur fram að árlegur stofnvöxtur íslenska lundastofnsins er undir stofnvistfræðilegum sjálfbærnimörkum og allt bendi til þess að hann hafi verið það undanfarin 28 ár, eða frá árinu 1995.

Í útrýmingarhættu

Lundastofninn á Íslandi gæti minnkað um 30% ef veiðar haldast óbreyttar, miðað við veiðitölur síðustu tólf ára. Það er því mikilvægt að grípa strax í taumana áður en ekki verður aftur snúið.

Lundastofninn á Íslandi er sá stærsti í heiminum, en rannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt mikla fækkun á lundapysjum í talningum. Lundinn er á válista Náttúrufræðistofnunar um fuglategund í bráðri hættu og eins er lundinn á heimsválista fugla í útrýmingarhættu.

Hækkun á hitastigi sjávar

Í skýrslunni kemur fram að hækkun á hitastigi sjávar skapi lundanum hættu því hún hefur áhrif á fæðumöguleika fuglsins. Hærra hitastig sjávar dregur úr vexti sandsíla á sumrin og hlýrri vetur auka orkueyðslu og ganga á fituforða sílanna.

Talið er að það verði að stöðva veiðar þar til stofnvöxtur lundans er nægilegur til að ráða við náttúruleg afföll og hóflega veiði. Í skýrslunni talið líklegt að  sölubann á lunda myndi stuðla að hóflegri veiði þegar þar að kæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert