70% samdráttur í byggingu nýrra íbúða

Byggingarkranar í Reykjavík.
Byggingarkranar í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Ríflega 70% samdráttur er í byggingum nýrra íbúða. Frá því í mars á þessu ári og fram í september var aðeins hafin bygging á 768 íbúðum á landinu öllu samanborið við sama tímabil í fyrra þegar byrjað var að byggja 2.575 íbúðir.

Skýringin kann að vera sú að hækkandi vaxtastig sé farið að hafa áhrif á byggingamarkaðinn.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu hagdeildar HMS fyrir október.

Fimmfalt fleiri 

Verulega dregur úr sölu nýrra íbúða. Alls eru 777 íbúðir fullbúnar en hafa ekki verið teknar í notkun. Til samanburðar þá voru þær 238 í mars síðastliðnum og 131 í september í fyrra. Þær eru því um fimmfalt fleiri nú samanborið fyrir ári síðan.

Hægst hefur á framkvæmdum milli ára. Af þeim 8.683 íbúðum sem eru í byggingu eru 2.356 íbúðir enn á sama byggingarstigi, nú og í síðustu talningu í mars sem að öllu jöfnu væru komnar á næsta byggingarstig á milli talninga.

Í september komu 113 nýbyggðar íbúðir inn á markað á landinu og samtals hafa 2.389 nýbyggðar íbúðir komið inn á markað til þessa á árinu.

717 fasteignir teknar úr sölu

Kaupsamningum fjölgar um 8% milli mánaða sé miðað við árstíðaleiðréttar tölur. Í ágúst voru gefnir út 649 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði sem gera 675 samninga þegar leiðrétt hefur verið fyrir reglubundnum árstíðasveiflum.

Alls voru 717 fasteignir teknar úr sölu á höfuðborgarsvæðinu í september sem er um 43% aukning frá því sem var í september í fyrra sem út frá sögulegum gögnum gefur vísbendingu um að kaupsamningum sé að fjölga.

Það hægðist á raunverðslækkun íbúða í september þegar 12 mánaða raunlækkun á höfuðborgarsvæðinu mældist 5%. Lækkunin var 5,3% í ágúst. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,4% að nafnvirði á milli mánaða í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert