Edda Björk Arnardóttir, sem á í forræðisdeilu við íslenskan mann búsettan í Noregi segir að fjölskyldan sé í áfalli eftir aðgerðir lögreglu og sýslumanns með liðsinni barnaverndar og þegar til stóð að fjarlægja þrjá af dengjum þeirra af heimili hennar í Grafarvogi í gærkvöldi.
Drengirnir neituðu hins vegar að yfirgefa heimili móður sinnar og fóru aftur til hennar síðar um kvöldið.
Málið á rætur að rekja til þess þegar norskur dómstóll úrskurðaði að drengirnir þrír. 12 ára tvíburar og 10 ára, skyldu hafa lögheimili hjá föður sínum og að hann skyldi einn fara með forsjá þeirra. Edda fór með þá af heimili þeirra í Noregi fyrir einu og hálfu ári síðan gegn vilja föður þeirra og fór til Íslands.
Edda á yfir höfði sér sakamál fyrir að nema drengina á brott sem og aðfarargerð sem segir til um að drengjunum beri að koma til föður þeirra í Noregi.
Svo virðist sem lögregla og sýslumaður hafi samtvinnað aðgerðir sínar. Fyrst var Edda handtekin af rannsóknarlögreglu og í beinu framhaldi var aðförin framkvæmd og annar drengjanna færður í bíl föður þeirra eftir ríflega tveggja klukkustunda sannfæringu. Eftir bíltúr kom faðir drengjanna til baka með drenginn sem neitaði á þeim tímapunkti að fara með föður sínum. Úr varð að báðir drengirnir urðu eftir hjá móður sinni.
„Á sama tíma og rannsóknarlögreglumenn koma og handtaka mig koma menn frá sýslumanni til að framkvæma aðfarargerðina. Ég mæti þeim þegar lögregla er að setja mig í járnum út í bíl,“ segir Edda.
Fyrir vikið hafði hún ekki tök á því að ræða við drengina áður en að aðfararbeiðninni kom. „Þeir handtaka einnig sambýlismann minn og setja hann inn í bíl án þess að lesa honum réttindi sín fyrr en eftir klukkustund. Í heild var hann frelsissviptur í þrjá tíma og hann sat í bílnum í tvo og hálfan tíma í handjárnum. Hann vildi bara komast inn heima hjá sér en var sagður trufla hagsmuni aðfararinnar,“ segir Edda.
Þriðji drengurinn sem dómurinn í Noregi náði til, þessi tíu ára, var ekki á heimilinu. Tvíburarnir voru því einir heima eftir að hún yfirgaf heimilið að sögn Eddu. Í framhaldinu fóru barnaverndarfulltrúar og fulltrúar sýslumanns ásamt föður drengjanna inn á heimilið. Að sögn Eddu voru tvær töskur fylltar af raftækjum en engin föt sett með.
„Eldri synir mínir sem eru 24 ára og 26 ára komu að þessum aðgerðum. Þeir spurðu strákana hvort þeir vildu fara. Þeir neituðu því en sögðu þá að mamma væri farin til Noregs,“ segir Edda og bætir því við að þær upplýsingar hafi komið frá föður drengjanna. Því yrðu þeir að fara með því enginn væri eftir til að sinna þeim. Edda gerir sérstaka athugasemd við það að starfsmenn Barnaverndar hafi ekki gripið inn í á þessum tímapunkti og látið í té réttar upplýsingar. „Þvert á móti tóku þeir undir þetta,“ segir Edda.
Bendir hún á að héraðsdómur hafi látið hana sæta farbanni í gær en engin framsalsbeiðni norskra yfirvalda sé til staðar.
Edda var í u.þ.b. þrjár klukkustundir í burtu en hitti drengina aftur þegar heim var komið í kjölfar þess að þeir neituðu að fara með föður sínum.
Athygli vekur að lögreglumenn og fulltrúar sýslumanns voru einkennisklæddir á vettvangi í Grafarvogi þar sem aðgerðirnar fóru fram. Er það í trássi við 45. grein laga um aðfarargerð. Þar segir:
„Lögreglumenn skulu vera óeinkennisklæddir við gerðina. Framkvæmd aðfarar skal hagað þannig að sem minnst álag verði fyrir barn og er sýslumanni heimilt að stöðva gerðina telji hann sérstaka hættu á að barn hljóti skaða af framhaldi hennar.“
Auk þess að einkennisklæddir lögreglumenn hafi verið á svæðinu voru lögreglubílar og lögreglumótorhjól á svæðinu.
Í yfirlýsingu frá lögreglu sem barst fjölmiðlum síðdegis kemur fram að þeir einkennisklæddu menn sem voru á svæðinu hafi verið þar sem liðsauki þegar málið dróst á langinn. Á staðnum voru þrír eða fjórir merktir lögreglubílar, tvö bifhjól og götu lokað. Edda segir hins vegar aðra sögu og að einn merktur bíll hafi komið strax í upphafi.
Að sögn Eddu var henni tjáð að um væri að ræða tvö aðskilin mál þegar hún var færð í lögreglubíl. Annars vegar vegna sakamáls og hins vegar aðfarargerð. „Það þarf enginn að segja mér það að rannsóknarlögregla og aðfararfulltrúar sýslumanns hafi óvart verið á sömu mínútu að keyra inn götuna. Þetta eru samhæfðar aðgerðir,“ segir Edda.
Spurð um líðan barnanna þá segir Edda erfitt að meta það. „Fjölskyldan er í sjálfu sér í sjokki. Minnsti strákurinn var ekki hérna fyrr en í lokin í gær. En þessir eldri eru bara með vinum sínum að lenda og vilja ekki mikið ræða þetta að öðru leyti,“ segir Edda.