Forysta KFUM og KFUK segir að sér sé brugðið við að heyra frásögn um að sr. Friðrik hafi brugðist trausti þeirra sem hann starfaði fyrir. Það hryggi forystu félaganna meira en orð fá lýst.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá KFUM og KFUK í kjölfar útkomu nýrrar bókar um séra Friðrik Friðriksson, þar sem Guðmundur Magnússon sagnfræðingur greinir frá því að séra Friðrik hafi leitað á ungan dreng, sem nú er kominn hátt á fullorðinsár.
Hafði sá samband við Guðmund, nú maður um áttrætt, og sagði honum hvað á daga hans hefði drifið.
„Við í KFUM og KFUK viljum hvorki breiða yfir sannleikann né söguna. Ef hægt er að leiða í ljós að stofnandi samtakanna hafi gerst sekur um brot gagnvart börnum, teljum við slíkt uppgjör nauðsynlegt.“
Segir í yfirlýsingunni að öryggi og velferð barna sé í fyrirrúmi í öllu starfi KFUM og KFUK í dag. Segir að gerðar séu strangar kröfur til þeirra sem starfa með börnum og ungmennum á vettvangi samtakanna og að þau sem starfa á vegum þeirra þurfi að standast ítarlega bakgrunnsathugun og fái einnig þjálfun og uppfræðslu um siðareglur, barnavernd og mörk í samskiptum.
Hvetja félögin einstaklingar sem kunna að hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti eða ofbeldi á vettvangi KFUM og KFUK að tilkynna um það, hversu langt sem liðið er. Það megi t.d. gera með því að hafa samband við samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Yfirlýsing KFUM og KFUK í heild sinni:
Í nýútkominni bók Guðmundar Magnússonar um ævi sr. Friðriks, stofnanda KFUM og KFUK, kemur fram vitnisburður manns um að sr. Friðrik hafi leitað á hann.
Okkur í forystu KFUM og KFUK er brugðið við að heyra frásögn um að sr. Friðrik hafi brugðist trausti þeirra sem hann starfaði fyrir. Það hryggir okkur meira en orð fá lýst.
Við í KFUM og KFUK viljum hvorki breiða yfir sannleikann né söguna. Ef hægt er að leiða í ljós að stofnandi samtakanna hafi gerst sekur um brot gagnvart börnum, teljum við slíkt uppgjör nauðsynlegt.
Öryggi og velferð barna er í fyrirrúmi í öllu starfi KFUM og KFUK í dag. Við gerum afar strangar kröfur til þeirra sem starfa með börnum og ungmennum á vettvangi samtakanna. Þau sem starfa á okkar vegum þurfa að standast ítarlega bakgrunnsathugun og fá einnig þjálfun og uppfræðslu um siðareglur, barnavernd og mörk í samskiptum.
Hafi einstaklingar orðið fyrir kynferðislegu áreiti eða ofbeldi á vettvangi KFUM og KFUK þá hvetjum við viðkomandi til að tilkynna um það, hversu langt sem liðið er. Það má t.d. gera með því að hafa samband við samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. https://www.samskiptaradgjafi.is/