Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, hefur sent frá sér nýja ævisögu séra Friðriks Friðrikssonar þar sem hann greinir frá því að séra Friðrik hafi leitað á ungan dreng, sem nú er kominn hátt á fullorðinsár. Hafði sá samband við Guðmund, nú maður um áttrætt, og sagði honum hvað á daga hans hefði drifið.
Séra Friðrik var þekktur að starfi sínu með og í þágu ungra drengja, hann átti stóran hlut að máli við stofnun kristilegu félaganna KFUM og KFUK auk skátafélags og knattspyrnufélaga.
Ræddi Guðmundur við Egil Helgason í Kiljunni í gær og greindi þar frá tilurð ævisögunnar og því að honum hefðu þótt nýju upplýsingarnar óþægilegar og hefði hann á tímabili íhugað að hætta við útgáfuna.
Á vefsíðunni skrifhus.is birtir Guðmundur pistil um tildrög bókarinnar en þau voru á þá leið að þegar Guðmundur var að skoða bréf Eggerts Claessen við ritun ævisögu hans fyrir sjö árum rakst hann á gömul sendibréf til hans frá árunum 1890 til 1895. Voru bréfin frá Friðriki sem enn var við nám er þau voru rituð.
„Eggert var aftur á móti 12 til 17 ára. Næstum tíu ára aldursmunur var á þeim og Eggert í rauninni bara barn þegar kynni þeirra hefjast. Þessi bréf vöktu forvitni mína vegna þess hve innilega eða ástúðlega þau voru skrifuð. Mörg þeirra höfðu ásýnd ástarbréfa eins og piltar skrifuðu stúlkum eða stúlkur piltum á þessum tíma. Mjög lítið er varðveitt um samkynja ástir frá 19. öld, efnið var algjört tabú í gamla þjóðfélaginu, og mér fannst ég þess vegna þurfa að kynna mér betur hvernig samskiptum þeirra Friðriks og Eggerts var háttað,“ skrifar Guðmundur.
Greinir hann frá því að hann hafi fengið leyfi til að skoða skjöl Friðriks sem eru í varðveislu KFUM og hafi hann varið drjúgum tíma í að kynna sér skjalasafnið. Segir hann margt hafa komið á óvart við lestur bréfa séra Friðriks, bréf Eggerts til Friðriks hafi reynst allt annars eðlis en bréf Friðriks til Eggerts, hafi bréf Eggerts borið mun meiri svip venjulegra bréfa sem vinir og kunningjar sendu sín á milli.
„Jafnframt fór ég að lesa mér til um sögu séra Friðriks og kom þá margt mér mjög á óvart, sérstaklega hvernig hann lýsir samskiptum sínum við drengi og pilta. Smám saman mótaðist sú hugmynd að skrifa bók um séra Friðrik og varð það ofan á.
Bókin er að stórum hluta hefðbundin sagnfræðileg ævisaga þar sem rakið er lífshlaup Friðriks og starfsferill. Sjónum er þó sérstaklega beint að dálæti hans á drengjum enda má segja að þau séu gildasti þátturinn í endurminningum hans,“ skrifar Guðmundur enn fremur en bókin er nú til sölu í verslunum um allt land.