Kveðst hafa fulla samúð með bændum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist hafa fulla samúð með bændum en háir vextir eru að sliga marga þeirra.

Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun talaði Ásgeir um að Seðlabankinn hefði ekki séð neina skuldabólu, heimili á fasteignamarkaði væru með mikið eigið fé og að staðan væri almennt tiltölulega sterk. Engin merki væru um lífskjarakrísu hérlendis, miðað við þau gögn sem væru fyrir hendi. Þvert á móti væri íslenskt launafólk eina launafólkið í Evrópu sem hefði ekki fengið lækkun kaupmáttar vegna verðbólgu. Lífskjör á Íslandi væru mjög góð.

Hvert bú lítið fyrirtæki

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði bændur varla geta tekið undir að þeir væru ekki staddir í miðri lífskjarakrísu.

Svaraði Ásgeir þannig að hann ætti við launafólk þegar hann talaði um enga lífskjarakrísu. Hvert bú væri í rauninni lítið fyrirtæki og bændur teldust því til framleiðenda.

„Ég geri mér grein fyrir því að mörg lítil fyrirtæki eru að finna mjög illilega fyrir þessum vaxtahækkunum, ég er alls ekki að gera lítið úr því, þannig að ég hef fulla samúð með þeim,” sagði Ásgeir. Mestu neikvæðu áhrifin kæmu fram hjá litlum framleiðendum af stefnunni sem Seðlabankinn fylgdi.

Kjarasamningar skipta lykilatriði

Ásgeir sagði eiginfjárstöðu íslenskra heimila ekki hafa verið betri síðan mælingar hófust og að allar horfur væru á því að verðbólga hjaðni þegar líður á næsta ár. Ef hagvöxtur drægist saman og atvinnuástand versnaði gæti aftur á móti farið að þrengja að fyrirtækjum og heimilum. „Að öðru leyti er peningastefnan að virka eins og hún á að virka,” sagði hann.

Seðlabankastjóri sagði það jafnframt að kjarasamningarnir á næsta ári skiptu lykilatriði fyrir peningastefnuna varðandi stöðugleika. Miðað við núverandi stöðu væri ekki gott að hækka nafnlaun. Slíkt myndi vinna vel með bankanum og væri grundvöllur fyrir slökun á aðhaldi. Vonandi næðist sátt um að ná verðbólgu niður. Þannig væri hægt að lækka vexti og ná jafnvægi í kerfinu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undirliggjandi verðbólga í Danmörku

Þorgerður Katrín spurði Ásgeir einnig út í samanburðinn á Íslandi annars vegar og Danmörku og Færeyjum hins vegar varðandi vexti og verðbólgu. Verðbólga í Danmörku væri til að mynda 1% og stýrivextir 3%.

Ásgeir sagði undirliggjandi verðbólgu mun hærri í Danmörku og að verðbólga væri töluvert vandmál á Norðurlöndum. „Mismunurinn er að þeir eru ekki með þennan mikla hagvöxt,” sagði hann og nefndi Svíþjóð sem dæmi. Seðlabankinn yrði að bregðast við þessum hagvexti. Það hefði verið stórt verkefni síðan kórónufaraldrinum lauk.

Einnig nefndi hann að verkalýðsfélögin á Norðurlöndum hefðu ekki brugðist við verðbólgunni í fyrra með eins miklum launahækkunum og hérlendis. Þess vegna hefði verðbólgan gengið hægar niður hér en annars staðar.

Bætti hann við að flest ríki Evrópu væru að glíma við undirliggjandi verðbólgu sem stafaði af miklum hita á vinnumarkaði. Ísland væri í algjörum sérflokki varðandi hagvöxtinn.

Sársaukafullar aðgerðir

Ásgeir sagði að ef farið væri í vaxtalækkanir núna myndi það hvetja markaðinn til að fara aftur af stað. Hættulegt væri að hvetja áfram eftirspurn þegar framboðið væri takmarkað.

„Þessar aðgerðir eru sársaukafullar,” sagði hann en bætti við að bankinn sæi enga aðra leið en að hægja á kerfinu.

„Við getum ekki byggt íbúðir á fullu, tekið á móti milljónum ferðamanna og staðið í opinberum framkvæmdum, allt á sama tíma. Það verður eitthvað undan að láta.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert