Ráðherra um aðför lögreglu: „Ég tek það alvarlega“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra tjáði sig um aðgerðir lögreglu í gær.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra tjáði sig um aðgerðir lögreglu í gær. Samsett mynd

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist taka alvarlega það sem hún sá í fjölmiðlum, og gæti bent til að lögregla og sýslumaður hafi ekki farið að lögum, þegar sækja átti þrjá drengi á heimili í Foldahverfi í Grafarvogi í gær.

Eins og mbl.is greindi frá í gær var Edda Björk Arnardóttir, sem nam syni sína þrjá á brott frá Nor­egi í óþökk föður þeirra, handtekin í gær ásamt stjúpföður drengjanna.

Framfylgja átti aðfarargerð sýslumanns sem kemur í kjölfar þess að bæði Landsréttur og Héraðsdómur Reykjavíkur hafa staðfest að synirnir skuli teknir úr umsjón Eddu og færðir til föður síns í Noregi.

Er það þó þvert gegn vilja drengjanna og var aðförinni í gær frestað eftir að drengirnir, sem eru tíu ára og tvíburar á þrettánda ári, neituðu að fara.

Sírenur, einkennisklæddir lögreglumenn og götum lokað

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir pírati tók málið upp í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Spurði hún ráðherra út í aðgerðir gærdagsins og vísaði þar til barnalaga og spurði hvort aðgerðir sýslumanns og lögreglu í gær hafi verið í trássi við lög og reglur um meðalhóf.

Vísaði Arndís til þess að í gær hafi verið þrír til fjórir lögreglubílar, tvö mótorhjól, lögreglumenn hafi verið í fullum skrúða og sírenur og ljós í gangi, auk þess sem götu hafi verið lokað. „Eins og þarna væri um sekasta fíkniefnabarón íslands að ræða,“ sagði Arndís.

Í 45. gr barnalaga er tekið á framkvæmd ákvörðunar um forsjá eða lögheimili barna og þá hvað gera skuli ef foreldri eða forsjármaður neitar að afhenda börn. Þar segir í 3. mgr.:

Ef til aðfarar kemur skv. 1. mgr. skal sýslumaður boða fulltrúa [barnaverndarþjónustu] [í umdæmi þar sem aðför fer fram] til að vera viðstaddan gerðina og skal hann gæta hagsmuna barns. Sýslumaður getur leitað liðsinnis lögreglu við gerðina og er lögreglu skylt að verða við slíkum fyrirmælum sýslumanns. Lögreglumenn skulu vera óeinkennisklæddir við gerðina. Framkvæmd aðfarar skal hagað þannig að sem minnst álag verði fyrir barn og er sýslumanni heimilt að stöðva gerðina telji hann sérstaka hættu á að barn hljóti skaða af framhaldi hennar.

Ítrekaði Arndís að samkvæmt lögunum ættu lögreglumenn að vera óeinkennisklæddir og að framkvæmdin ætti að vera þannig að sem minnst álag verði fyrir barn.

Fara á yfir málið í ráðuneytinu

Guðrún sagði skýrt í lögunum að lögreglumenn ættu að vera óeinkennisklæddir í aðferð sem þessari. „Eftir því sem ráðherra sá í fjölmiðlum í gær þá var það ekki raunin. [Arndís grípur fram í úr sal og segir: Heldur betur ekki] Ég tek það alvarlega. Ég tek það til skoðunar að þessir verkferlar, það verði farið yfir þá verði farið yfir málið,“ sagði Guðrún.

Bætti hún því við að hún hefði þegar rætt þetta mál við barnamálaráðherra, þar sem málefni barnaverndarnefnda væru á forræði barnamálaráðherra. „Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi og hagsmuni barna á Íslandi,“ sagði Guðrún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert