Félag atvinnurekenda kveðst hafa upplýsingar um mörg tilvik þar sem starfsmenn ríkisins fái vildarpunkta vegna flugferða sem greiddar eru af skattgreiðendum og noti þá í persónulega þágu.
Þetta kemur fram í nýju erindi sem félagið sendi í gær á Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur fjármálaráðherra.
Í erindinu er vitnaði í 9. grein reglna um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins, gefnar út af fjármála- og efnahagsráðherra 1. október 2020.
Þar segir: Fríðindi og hvers kyns vildarkjör sem aflað er við greiðslu á farmiða skulu eingöngu koma þeim ríkisaðila sem greiðir farmiðann til góða.
Hefur FA í kjölfarið óskað eftir því að ráðuneytið svari annars vegar hvernig eftirliti með framangreindu ákvæði sé háttað og hvernig gengið sé úr skugga um að ríkisstarfsmenn noti vildarpunkta ekki í persónulega þágu. Og hins vegar hver viðurlögin séu við því ef ríkisstarfsmaður nýtir vildarpunkta í eigin þágu.
„FA leyfir sér að minna á það ítrekaða álit umboðsmanns Alþingis að það sé óskráð meginregla í íslenzkum stjórnsýslurétti að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svars sé ekki vænzt, en við setningu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið gengið út frá því að þessi regla gilti. Svars við erindi þessu er óskað hið fyrsta,“ segir einnig í erindinu.
mbl.is greindi frá því í síðustu viku að viðskipti Alþingis við Icelandair væru umtalsvert meiri en við Play. Þannig námu útgjöld Alþingis til flugmiðakaupa af Icelandair á síðasta ári 20,9 milljónum króna samanborið við rúmlega 500 þúsund krónur til miðakaupa af Play.
Á mánudaginn sendi FA erindi á fjármálaráðherra og forseta Alþingis þar sem sagði meðal annars: „Það er að mati FA algjörlega ótækt og ýtir undir spillingu; að vegna þess að persónulegur ávinningur er í boði fyrir starfsmenn ríkisins og fjölskyldur þeirra beini þeir viðskiptum sínum fremur til flugfélaga sem veita vildarpunkta en að taka ævinlega hagkvæmasta kostinn fyrir skattgreiðendur, sem þeim þó ber.“
Hefur FA nú sent nýtt erindi til ráðherra í kjölfar ábendinga um reglur um greiðslu ferðakostnaðar og óskað eftir svörum.
mbl.is leitaði viðbragða hjá Birgi Ármannssyni, forseta Alþingis, fyrr í dag vegna erindis FA. Hann vildi lítið tjá sig um málið en sagði að það yrði tekið til skoðunar.