Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur boðað til blaðamannafundar í Mýrinni í Grósku föstudaginn 27. október klukkan 11.00.
Í tilkynningu sem Stúdentaráð sendi frá sér rétt í þessu kemur fram að til umræðu verði ólögmæti skrásetningargjaldsins við Háskóla Íslands og fjármögnun opinberra háskóla.
Á fundinum mun Rakel Anna Boulter, forseti stúdentaráðs, flytja ávarp, en að því loknu gefst tími fyrir spurningar.
Í tilkynningu sem Stúdentaráð HÍ sendi frá sér í kvöld segist ráðið líta úrskurð áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema um ólögmæti skrásetningargjalda alvarlegum augum.
„Vanfjármögnun opinberra háskóla á Íslandi veldur því að Háskóli Íslands hefur gripið til þess ráðs að seilast í vasa stúdenta til þess að halda sér á floti. Því krefjumst við þess að Háskóli Íslands endurgreiði hverjum þeim sem greitt hefur ólögmæt skrásetningargjöld við skólann, eins og honum ber skylda til,“ segir í tilkynningunni.