„Þær hafa allan hug á að klára námið með einum eða öðrum hætti. Þær standa sig ótrúlega vel og eru komnar nokkuð langt með námið. Þær eru algjörlega til fyrirmyndar.“
Þetta segir Magnús Ingvason, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, um systurnar Yasameen og Zahruu sem stundað hafa nám við skólann undanfarin þrjú ár. Þeim hefur nú verið vísað úr landi öðru sinni.
„Við erum draugfúl með þetta,“ segir Magnús í samtali við mbl.is og kveðst munu senda ríkisstjórninni bréf til að biðla fyrir systrunum.
Hussein, bróður systranna, og fjölskyldu hans hefur verið synjað um alþjóðlega vernd tvisvar hér á landi. Þá synjaði Alþingi umsókn þeirra um ríkisborgararétt fyrr á árinu.
Fengu þau frest til miðnættis í fyrradag til að ákveða hvort þau myndu fara sjálfviljug úr landi eða með valdi eins og síðast þegar þeim var vísað úr landi.
Í fyrra skiptið reyndist brottvísunin ólögleg og dvaldi Hussein fjölskyldan í Grikklandi í um tvo mánuði áður en þau komu aftur til landsins.
Yasameen og Zahraa tóku upp þráðinn í námi sínu við FÁ eftir að þær komu til landsins á ný í desember. Þær eru báðar yfir 18 ára aldri.
„Þær hafa allan hug á að klára námið með einum eða öðrum hætti. Þær standa sig ótrúlega vel og eru komnar nokkuð langt með námið. Þær eru algjörlega til fyrirmyndar,“ segir Magnús.
Hann segir þær tala fína íslensku og eru þær í íslenskunámi meðfram öðru námi.
„Við erum ekki búin að gefast upp en þetta er ótrúlega erfitt viðureignar. Þær eru búnar að vera hér í þrjú ár og eru að sinna öldruðum á Hrafnistu,“ segir Magnús.
Síðast þegar systurnar voru sendar úr landi dvöldu þær í Grikklandi í tvo mánuði. Gerðu þær tilraun til þess að halda áfram með námið. „Þær héldu áfram í fjarnámi síðast. En tölvu- og netsamband var ekki gott. Því var sett af stað björgunarprógram fyrir þær til að fara yfir hluti sem þær höfðu misst af. Þær náðu öllum áföngum í framhaldinu,“ segir Magnús.
Magnús segist hafa látið sig málið varða og hann hafi verið í samskiptum við lögfræðinga þeirra. „Við héldum að þessu máli væri lokið þegar þær komu aftur en stjórnvöld virðast alveg staðráðin í því að koma þeim í burtu,“ segir Magnús.
„Nú er bara að senda efsta stjórnlaginu bréf,“ segir Magnús sem hyggst senda bréf á Ásmund Einar Daðason, mennta og barnamálaráðherra, og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir hönd Yasameen og Zahruu.
Hann segir að 5-10 nemendur við skólann hafi stöðu flóttamanns og alls kostar óljóst sé hver afdrif þeirra verða. „Það er í ferli hjá nokkrum einstaklingum,“ segir Magnús.
Að hans sögn hefur skólinn ekki þurft að horfa fyrr á eftir nemendum á þessum forsendum.