Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur tímabundið afturkallað starfsleyfi skemmtistaðarins B við Bankastræti 5. Skemmtistaðurinn verður því lokaður í sex vikur frá og með deginum í dag, 27. október. Skemmtistaðurinn mun krefja ríkið um skaðabætur.
Þetta segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum skemmtistaðarins, sem segjast hafa kvartað formlega yfir einstökum aðgerðum lögreglu og farið fram á að starfsaðferðir lögreglu og afskipti af staðnum verði skoðuð.
Starfsleyfið er afturkallað í kjölfar tilkynninga frá lögreglu um að á þar hafi á tilteknum dögum verið of margir gestir og að meðal gesta hafi verið ungmenni sem ekki hafi haft aldur til að vera inni á staðnum en mbl.is greindi frá því á dögunum, m.a. að ungmennum sem ekki höfðu náð 20 ára aldri hefði boðist að greiða fyrir inngöngu á skemmtistaðinn.
„Við vitum upp á okkur sökina í einu tilviki að of margir hafi verið inni á staðnum og brugðumst við til að það kæmi ekki fyrir aftur. En okkur finnst hart að fá refsingu fyrir að sjá í einhverjum tilvikum ekki í gegn um fölsuð skilríki ungmenna. Okkur er enginn akkur í að hafa krakka inni á staðnum. Við mótmæltum þessari ákvörðun sýslumanns og teljum of langt gengið í sviptingu starfsleyfisins, sér í lagi ef í ljós kemur að lögreglan hafi farið offari í eftirlitsaðgerðum sínum á staðnum,“ er haft á eftir Sverri Einari Eiríkssyni, öðrum eiganda staðarins, í tilkynningunni.
Þar segir að ríkið verði krafið um skaðabætur vegna ólögmætrar ákvörðunar sýslumanns um tímabundna afturköllun starfsleyfis. Á meðan á lokuninni stendur verður tíminn þó notaður til að halda áfram endurbótum á skemmtistaðnum sem mun opna „tvíefldur að þeim loknum“.