Elliðaárstöð Orkuveitunnar í Elliðaárdal hlaut fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar árið 2023 í flokki stofnana- og þjónustulóða. í umsögn dómnefndar segir m.a. að svæðið höfði til allra aldurshópa og kaffihús á svæðinu muni þjóna öllum gestum Elliðaárdals.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem haft er eftir Birnu Bragadóttur, forstöðukonu Elliðaárstöðvar, að um sé að ræða mikla viðurkenningu, þrátt fyrir að svæðið eigi töluvert í land með að vera að fullu tilbúið.
Elliðaárstöðin var gangsett í fyrsta sinn fyrir rúmum hundrað árum og um var að ræða sannkallaða byltingu í lífsgæðum Reykvíkinga. Rafmagnsframleiðslu var síðan hætt árið 2014 og 5 árum síðar var haldin hugmyndasamkeppni um Elliðaárstöð, sögu- og tæknisýningu á rafstöðvartorfunni. Hönnunarhópurinn Terta bar sigur úr bítum og hefur verið unnið að því að breyta svæðinu í áfangastað allar götur síðan.
Birna tók við viðurkenningu úr höndum Dags B. Eggertssonar borgarstjóra við athöfn í Höfða í gær. Í tilkynningu er haft eftir Birnu:
„Það gefur okkur byr undir báða vængi að áfangastaðurinn sem við erum að skapa skuli fá slíka viðurkenningu, þrátt fyrir að eiga töluvert í land að vera að fullu tilbúin. Það er gaman að sjá að sú sýn OR að gefa til baka eftir 100 ára orkunýtingu í dalnum, segja sögu orkumála sem er samofin framfarasögu borgarinnar, gefa húsakostinum nýtt líf og virkja nú fólk, hugvit og nýsköpun sé eftirtektarverð.“
Þá þakkaði hún þeim fjölmörgu aðilum sem hafa komið að því að byggja upp áfangastaðinn í dalnum.
Í tilnefningu dómnefndar segir:
„Verkefnið Elliðaárstöð - útisvæði Elliðaárstöðvar fær viðurkenningu sem stofnana- og þjónustulóð. Það er metnaðarfullt og gott fordæmi þar sem fyrirtæki gefur til samfélagsins. Grasflöt er breytt í fjölbreytt og skemmtilegt leik- og fræðslusvæði, og bílastæði er breytt í torgsvæði. Eldri gróður er varðveittur og vel viðhaldið en garðurinn við gömlu Rafstöðina hefur mikið verndargildi vegna aldurs og fagurs umhverfis. Mikið er lagt upp úr náttúrulegum efnivið. Svæðið höfðar til allra aldurshópa og kaffihús á svæðinu mun þjóna öllum gestum Elliðaárdals.“