Föst starfsstöð björgunarþyrlu á Akureyri yrði stórt framfaraskref í viðbragðs-, öryggis-, eftirlits- og björgunarmálum þjóðarinnar að mati forstjóra Landhelgisgæslunnar. Föst viðvera yrði bylting í björgunar-, sjúkraflugs- og eftirlitsgetu stofnunarinnar.
„Með slíku fyrirkomulagi væri unnt að ná til allra landshluta með þyrlu á innan við 90 mínútum á hefðbundnum degi auk þess sem björgunarviðbragð á norður-, austurmiðum og hálendinu myndi styrkjast verulega,“ segir í umsögn Georgs Kr. Lárussonar, forstjóra Gæslunnar, um þingsályktunartillögur Njáls Trausta Friðbertssonar og 16 annarra þingmanna um að ein af þyrlum Gæslunnar hafi starfsstöð á Akureyri árið um kring.
Fram kemur í umsögn Gæslunnar að fjölga þyrfti þyrluáhöfnum úr sex í sjö og styrkja viðhaldsgetu svo unnt væri að staðsetja þyrlu á landsbyggðinni yfir 90% ársins.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.