„Getum ekki krafið háskólann um þessar upphæðir“

Júlíus Viggó Ólafsson, stúdentaráðsfulltrúi Vöku, segir skrifstofu stúdentaráðs ekki hafa …
Júlíus Viggó Ólafsson, stúdentaráðsfulltrúi Vöku, segir skrifstofu stúdentaráðs ekki hafa fylgt upplýsingaskyldu sinni, en Linda Rún Jónsdóttir, forseti Röskvu segir að um persónumál sé að ræða. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Afstaða Vöku er mjög skýr þegar kemur að innheimtu skrásetningargjaldanna. Það er grundvallaratriði að þær forsendur sem skrásetningargjaldið er reiknað út frá standist skoðun og þessi áfangi sem náðist núna með úrskurði áfrýjunarnefndar er áfangi í lengri sögu þessa máls, sem Vaka hefur til að mynda verið að berjast fyrir í rúman áratug,“ segir Júlíus Viggó Ólafsson, stúdentafulltrúi Vöku.

„Við erum þeirrar skoðunar að þegar verið er að rukka gjöld af hálfu ríkisins þá þurfi að vera skýrar forsendur fyrir því.“

Eins og mbl.is greindi frá síðdegis í gær þá hefur áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema fellt úr gildi úrskurð háskólaráðs, þar sem beiðni nemanda um endurgreiðslu skrásetningargjalds við skólann hafði verið hafnað. 

Nú fyrr í dag boðaði stúdentaráð til blaðamannafundar, þar sem krafa stúdentaráðs til háskólaráðs var tilkynnt. Þar er krafist þess að skrásetningargjald Háskóla Íslands verði tekið til skoðunar með því markmiði að annað hvort lækka það eða leggja það niður.

Frumhlaup í meðhöndlun málsins

Júlíus tekur fram að um sé að ræða einhvers konar frumhlaup í meðhöndlun málsins og segir enn fremur: 

„Við vorum nú í vor að ræða það að háskólann vanti milljarð og þá ef farið er fram á að háskólinn endurgreiði gjöld allt frá árinu 2014 erum við að tala um upphæð sem hleypur á fleiri miljarða.“

„Þetta er eitthvað sem ég held að við getum verið sammála um að við getum ekki krafið háskólann um þessar upphæðir.“

Unnið í lokaðri skrifstofu

„Við kusum með þessari tillögu sem flutt var á blaðamannafundinum, en ástæðan fyrir því að ég tala um frumhlaup í þessum efnum er af því að við fáum tillöguna í hendurnar um það bil sólarhring fyrir fund. Á sama tíma hefur skrifstofan [skrifstofa stúdentaráðs] verið upplýst um þennan útskurð frá byrjun mánaðar eða 7. október að minnsta kosti,“ segir Júlíus. 

Júlíus segir enn fremur að skrifstofan hafi haft tækifæri til að upplýsa stúdentaráð um niðurstöðu áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema á stúdentaráðsfundi þann 9. október og þann 19. október, en gerði það ekki.

„Það var ekki verið að fylgja upplýsingaskyldu stúdentaráðs.“

Hann heldur áfram:

„Ég er hræddur um að við munum ekki ná fram þeim niðurstöðum sem við viljum ná af því að það var farið of geyst í málið og ekki haldið öllu stúdentaráði inn í umræðunni.“

Segir hann að þess í stað hafi málið verið unnið í lokuðum hópi inn á skrifstofu í umboði meirihlutans. Vaka er í minnihluta stúdentaráði, en Röskva er með meirihluta.

Þetta varðar persónumál

Linda Rún Jónsdóttir, forseti Röskvu, svarar ásökunum Júlíusar um skort á upplýsingagjöf og bendir á að um sé að ræða mál sem varðar tiltekna persónu: 

„Röskva stendur með skrifstofunni og okkur finnst þetta góð leið til að byrja, að senda kröfu á háskólaráð og sjá hvert það fer. Okkur fannst skrifstofan vinna þetta mál mjög vel, en þetta varðaði persónumál. Það var þarna manneskja á bak við og það þurfti að tryggja ákveðna leynd yfir því, þannig auðvitað er mikilvægt að hún gefi leyfi til að þetta sé rætt við stúdentaráð sjálft,“ segir Linda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert