„Það er alveg skýrt í úrskurðinum að nefndin telur grundvöll gjaldsins ófullnægjandi og að það eigi sér þar með enga stoð í lögum. Þar segir berum orðum að grundvöllurinn fyrir innheimtu skrásetningargjaldsins brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.“
Þetta segir Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, lánasjóðsfulltrúi stúdentaráðs Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi ráðsins.
Eins og mbl.is greindi frá síðdegis í gær þá hefur áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema fellt úr gildi úrskurð háskólaráðs, þar sem beiðni nemanda um endurgreiðslu skrásetningargjalds við skólann hafði verið hafnað.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, tjáði Morgunblaðinu í dag að í fréttaflutningi hefðu niðurstöðurnar verið rangtúlkaðar.
Gísli segir Jón Atla fara rangt með og að úrskurðurinn sé alveg skýr um þetta.
„Í stuttu máli eru ástæðurnar fyrir því að nefndin kemst að þessari niðurstöðu þær að forsendurnar, fyrir þeim gjaldliðum sem liggja til grundvallar fjárhæðar skrásetningargjaldsins, eru ekki rökstuddar að því leyti að það eru ekki til nein gögn sem vísa til þess að fjárhæðin eigi að vera með þeim hætti sem hún er,“ segir Gísli.
„Nefndin segir að þetta eitt og sér leiði til þess að brotið hafi verið gegn reglum stjórnsýsluréttarins um innheimtu þjónustugjalda.“
Hann heldur áfram:
„Úr því sem komið er þá er ekkert sem segir að háskólinn geti ekki núna útbúið forsendur og gögn sem að styðja það að skrásetningargjöldin á næsta ári verði með réttmætum hætti. Það þýðir ekki að þau skrásetningargjöld sem nú þegar er búið að innheimta með ólögmætum hætti sé hægt að leiðrétta eftir á.
Þannig þetta er ekki í samræmi við þessi orð [Jóns Atla] sem þú vísar til.“
Rakel Anna Boulter, forseti stúdentaráðs, kveðst vonast til að gjaldið verði skoðað að nýju og þá lækkað eða mögulega afnumið.
„Til að byrja með út frá þeirri stöðu sem er núna viljum við að öll ólögmæt skrásetningargjöld séu endurgreidd. Við vonumst til þess að þetta varpi ljósi á þær alvarlegu aðstæður sem ríkja í fjármögnun opinberra háskóla hér á landi og þetta verði til þess að gjaldið verði endurskoðað með tilliti til lækkunar eða mögulega afnáms,“ segir hún.
Gísli tekur undir:
„Stefna stúdentaráðs er almennt sú að skrásetningargjaldið eigi að vera tekið til gagnrýnnar endurskoðunar, með því markmiði að annað hvort lækka það eða leggja það niður.“