Leita að umsjónarmanni fyrir eyju

Málmey á Skagafirði.
Málmey á Skagafirði. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur auglýst eftir umsjónarmanni með eyjunni Málmey, en eyjan er sú stærsta á Skagafirði og skartar vita sem byggður var árið 1937.

Starf umsjónarmanns felur meðal annars í sér að fylgjast með og standa vörð um fuglalíf og annað náttúrufar í eyjunni. Þá skal hann einnig hafa eftirlit með öllum ferðum út í eyjuna og leitast við að gefa ferðafólki kost á að komast þangað til að njóta þar friðsældar og fylgjast með fuglalífi, að því er segir í auglýsingu.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, segir í samtali við mbl.is að umsjónarmaður hafi verið með Málmey í áratugi. Fyrirkomulagið komst á þegar gamli Hofshreppur gerði afnota- og leigusamning við Vita- og hafnarmálastofnun um eyjuna. Þar kom fram að setja skyldi umsjónarmann sem skyldi fylgjast grannt með lífríki hennar og hafa eftirlit með öllum ferðum í Málmey.

Lætur af störfum eftir þrjá áratugi sem umsjónarmaður

Segir Sigfús að sá sem nú láti af störfum sé kominn á aldur og hafi óskað lausnar og því sé kominn tími á að finna nýjan umsjónarmann Málmeyjar. Það er hann Hartmann Páll Magnússon á Hofsósi sem hefur undanfarna áratugi gegnt umsjónarmannsstarfinu. Hann sagði nýlega við Vísi að hann væri orðinn það slæmur til heilsunnar að það væri kominn tími á nýjan umsjónarmann. Sagðist hann hafa tekið við hlutverkinu af Kjartani Hallgrímssyni á Tjörnum.

Málmeyjarvitinn er í suðurhluta eyjunnar.
Málmeyjarvitinn er í suðurhluta eyjunnar. Ljósmynd/Gudmundur St Valdimarsson

Starfslok Hartmanns Páls voru rædd á fundi byggðarráðs Skagafjarðar í síðasta mánuði. Var þar samþykkt að auglýsa eftir nýjum umsjónarmanni eins og nú hefur verið gert.

Á tíma bauð Hartmann Páll upp á reglubundnar ferðir út í eyjuna, en það hefur ekki verið í nokkurn tíma að sögn Sigfúsar. Hann segist vonast til að slíkar siglingar gætu komist á aftur og þá yrði það væntanlega í einhverju samstarfi með nýjum umsjónarmanni, hvort sem hann myndi sjálfur sjá um slíkar ferðir eða fylgjast með þeim.

Svipað stór og Kársnesið

Málmey er sem fyrr segir stærsta eyjan á Skagafirði, eða um 160 hektarar. Til samanburðar jafngildir það því að vera tæplega Kársnes í Kópavogi.

Eyjan er fremur láglend, en hækkar til norðurs. Er þar hraundyngja, en sunnan megin er eyjan úr móbergi. Búskapur var áður í eyjunni en hann lagðist af 1952, ári eftir að íbúðarhús sem þar stóð brann, skömmu fyrir jólin 1951. Sigfús segir að víða í eyjunni sé hvönn, en Málmey hefur ekki verið nytjuð til fjölda ára þegar kemur að slætti.  

Launin í formi nytja af fuglum og reka

Í Málmey er mikilvæg sjófuglabyggð og þar kæpa um 90% af útselum Norðvesturlands, eða um 6,5% af heildarstofninum.

Það gjald sem umsjónarmaður fær fyrir umsjón með Málmey er að nýta þau hlunnindi sem eyjan gefur af sér. Sigfús segir að þar sé einkum horft til nytja af fuglum innan þess ramma sem heimilaður sé hverju sinni. Þá hafi einnig verið nokkur reki í eyjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert