Mest langtímaeinkenni hjá þeim veikustu

Misserin sem heimsbyggðin minnist. Kínversk flugáhöfn kemur til Los Angeles-flugvallar …
Misserin sem heimsbyggðin minnist. Kínversk flugáhöfn kemur til Los Angeles-flugvallar 3. desember 2021. AFP/Frederic J. Brown

Niðurstaða rannsóknarverkefnis, sem framkvæmt var undir handleiðslu rannsóknarhóps Unnar Örnu Valdimarsdóttur og Thors  Aspelund, á kórónuveirufaraldrinum og eftirköstum hans, samstarfsverkefni stofnana í sex löndum, var á þá lund að langvinn einkenni Covid-19 hrjá helst þá sem veiktust alvarlega af sjúkdómnum í faraldrinum.

Frá þessu greinir breska vísindatímaritið The Lancet Public Health sem fjallar um rannsóknina.

Náði rannsóknin til 64.880 fullorðinna þátttakenda frá Íslandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi sem sjálfir skiluðu inn gögnum um Covid-19 og þau líkamlegu einkenni sem þátttakendurnir upplifðu. Skoðuðu rannsakendur 15 sjúkdómseinkenni hjá þátttakendum sem ýmist höfðu greinst með Covid-19 eða ekki, tíðni alvarlegra veikinda og breytingar sem urðu á sjúkdómseinkennum yfir tímabil.

Átta einkenni marktækust

Fylgst var með þátttakendum í allt að 27 mánuði en 34,5 prósent þeirra höfðu greinst með Covid-19. Þeir sem greinst höfðu með sjúkdóminn, samanborið við þá sem ekki greindust með hann, voru 37 prósent líklegri til að upplifa alvarleg einkenni hans.

Einkum voru það átta af einkennunum fimmtán sem reyndust tölfræðilega marktæk miðað við tilgang rannsóknarinnar, mæði, brjóstverkir, svimi, hraður hjartsláttur, höfuðverkir, þreyta, svefnörðugleikar og bakverkir.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er sem fyrr segir að langvinn sjúkdómsáhrif séu algengust hjá þeim sem veiktust alvarlega en ekki þeim sem fengu sjúkdóminn en fundu ekki til alvarlegra veikinda.

Stór rannsóknarhópur styrkleiki

Telja aðstandendur rannsóknarinnar það til styrkleika hennar við hve stóran rannsóknarhóp var stuðst, rúmlega 22.000 manns á fjórum Norðurlandanna sem greindust á sínum tíma með Covid-19.

Meðal veikleika nefna þeir hins vegar að rannsóknin byggði á upplýsingum sem þátttakendur sjálfir lögðu fram um Covid-19-greiningu sína og líkamleg einkenni. Þar með gæti misminni þátttakenda skekkt niðurstöðurnar þar sem óvíst sé að þeir muni einkennin og líðan sína í smáatriðum.

Einnig geti það haft áhrif að þeir sem greindust með sjúkdóminn gætu verið líklegri til að tilkynna um einkenni en þeir sem ekki greindust og að lokum gætu mismunandi tímabil gagnasöfnunar leitt til ósamræmis í upplýsingum um sjúkdómseinkenni hjá hópunum tveimur, þeim sem greindust með sjúkdóminn og þeim sem ekki greindust með hann.

Umfjöllun The Lancet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert