„Þetta er fyrirséð út frá úrskurðinum en breytir engu með eðli málsins,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, við mbl.is, um niðurfellingu á framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Það sé ákvörðun Alþingis að fara í þennan virkjanakost og því verði það gert.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar þann 14. júní, en daginn eftir felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virkjunarleyfið úr gildi, sem áður hafði verið veitt. Nú er því bæði búið að fella úr gildi framkvæmda- og virkjunarleyfi sem búið var að veita vegna framkvæmdarinnar.
Úrskurðurinn byggði á fjölda kæra sem nefndinni hafði borist. Fjöldi náttúrusamtaka höfðu mótmælt framkvæmdinni og m.a. sagt að hún gæti ekki tryggt tilvist hins villta laxastofns í Þjórsá.
„Við höfum gert mjög lítið í raforkumálum í 15 ár og enn þá lengur þegar kemur að hitaveitum. Þessir ferlar eru ekki mjög vel slípaðir, vegna þess að það hefur lítið verið gert í mjög langan tíma,“ segir Guðlaugur Þór.
Fram kom í raforkuspá Landsnets í ágúst að þörf væri á fleiri virkjunum til viðbótar þeim sem áformaðar eru, auk stækkunar á virkjunum sem þegar eru fyrir hendi. Einnig þyrfti að horfa til fjölbreyttari orkugjafa eins og vindorku og sólarorku.
„Okkur liggur mjög á að fá græna orku og sem betur fer eru orkufyrirtækin að fara að nýta það sem er í nýtingarflokki sem er fagnaðarefni. Og þegar Alþingi íslendinga hefur ákveðið að setja hluti í nýtingarflokk þá er mjög mikilvægt að það verði gert, meðal annars til þess að ná loftslagsmarkmiðum okkar.“
Guðlaugur er ekki einn um það að hafa séð fyrir niðurstöðurnar. Snæbjörn Guðmundsson, formaður Náttúrugriða, sem eru ein þeirra samtaka sem stóðu að kærunum, sagði við mbl.is fyrr í dag að það væri augljóst að samþykkt framkvæmdarleyfi myndi ekki standast.
Snæbjörn sagðist jafnframt vita til þess að Landsvirkjun leitaðist við að fá undanþágu til þess að virkjunarleyfið yrði veitt að nýju. Hann sagði mjög ströng skilyrði vera fyrir undanþágunni en óttaðist að leyfið yrði veitt þó skilyrðin væru ekki fyrir hendi.
„Við vitum það alveg í þessum náttúruverndarsamtökum, sem kærðum og erum með þetta í gjörgæslu, að það hefur verið gefið í skyn í fjölmiðlum að þetta séu einskonar formsatriði sem þurfi bara að kippa í lag. Við vitum alveg að það er ekki þannig, þetta er mikli meira en formsatriði,“ sagði Snæbjörn, sem einnig áréttaði að fyrir undanþágunni þyrftu að vera mjög sterkar ástæður.