Óskar eftir hugmyndum að styttu í stað séra Friðriks

Styttan sýnir Friðrik og dreng við hlið hans.
Styttan sýnir Friðrik og dreng við hlið hans. mbl.is/Hákon

Stefán Pálsson sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi Vinstri grænna hefur óskað eftir hugmyndum að styttu sem kæmi í stað þeirrar sem stendur nú við Bernhöftstorfuna í hjarta miðborgarinnar.

Sú er af séra Friðriki Friðrikssyni, sem komst í kastljós samfélagsins í gær áratugum eftir andlát sitt í kjölfar nýútkominnar bókar Guðmundar Magnússonar sagnfræðings. Grein­ir hann frá því að séra Friðrik hafi leitað á ung­an dreng, sem nú er kom­inn hátt á full­orðins­ár.

„Við vitum öll hvernig þetta er að fara að enda. Styttan mun víkja, enda í sjálfu sér bara eðlilegasti hlutur í heimi að listaverk séu færð til eða fjarlægð úr umhverfinu. Á þessum sama stað stóð t.d. styttan af Jónasi Hallgrímssyni sem núna er í Hljómskálagarðinum,“ skrifar Stefán á Facebook-síðu sína.

Næsta skref hljóti að vera að ákveða hvað eigi að koma þarna í staðinn.

Verk sem þegar sé í eigu borgarinnar

„Og af því að FB-veggurinn minn er einhver mikilvægasti vettvangur skipulagspólitískra ákvarðana er tilvalið að hefja hér umræðu um það.

Raunhæfast væri – ef horft er til árferðisins í rekstri borgarinnar – að þarna komi verk sem nú þegar er í eigu borgarinnar eða safna á hennar vegum. Myndum við vilja sjá annað verk eftir Sigurjón þarna í staðinn? Eða kannski Ásmund Sveinsson þar sem verk eftir hann eru bæði norðan og sunnanmegin við núverandi styttu.

Öreigar eftir Einar Jónsson gætu sómt sér vel, þótt það sé vissulega dálítið myrkt verk. Og Nína er í umræðunni núna og á annað verk í Lækjargötu,“ skrifar Stefán og óskar eftir ábendingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert